17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna ummæla síðasta ræðumanns um það, að n., sem fjallar um rétt okkar Íslendinga til Grænlands, skili fljótt áliti, þá vil ég benda á, að allmikið verk er að rannsaka það mál og fara í gegnum allt það, sem fram hefur komið í því sambandi, og ætti þeim, sem stutt hafa fjárframlög ríkisins til rita Jóns Dúasonar og væntanlega þekkja þau skrif, að vera það ljóst. Það er því ekki hægt að segja um, hvenær nál. um þetta efni verður tilbúið, enda nauðsynlegt, að öll gögn verði gaumgæfilega rannsökuð. Hins vegar efa ég ekki, að n. mun kappkosta að hraða störfum sínum, eftir því sem föng eru á. Það má deila um rétt okkar til Grænlands, og því nauðsynlegt, að rannsókn liggi fyrir í því máli, áður en lengra er haldið. Þm. Borgf. sagði að vísu, að eftir guðs og manna lögum ættum við rétt til Grænlands. Ég er nú ekki svo kunnugur guðs lögum í slíkum málum, að ég geti um þau dæmt, en hitt veit ég, að um mannalögin hefur verið deilt. Ég er ekki með þessu að gera lítið úr rétti okkar Íslendinga, heldur vil ég aðeins benda á, að heppilegt mun vera að halda lipurlega á málinu, ef góður árangur á að nást, og það mun ekki standa á mínu fylgi við málið, ef niðurstaða n. verður sú, að okkar sé rétturinn og okkur mikils virði. (PO: Gott, að ráðh. styður málið.) Við þm. Borgf. munum eins og hingað til standa saman í öllum góðum málum. — Þm. Borgf. var að spyrja um skilning minn á ákvæði því, sem hér um ræðir, og er ekki um það að deila, að íslenzk málvenja ræður í því sambandi.

Að lokum vil ég segja það sem höfuðatriði í þessu máli, að á meðan Íslendingar hugsa sér að gera kröfu til Grænlands, þá er hagkvæmt að ljúka samningum við Dani fyrr en vitað er, hvaða kröfur við ætlum að gera, því að það gæti spillt mjög fyrir málinu að slíta það úr tengslum við aðra samninga. Ég tel því, að við eigum að halda dyrunum opnum, þar til málið liggur ljóst fyrir, því að það getur reynzt erfitt að opna, ef öllu væri læst nú.