20.12.1949
Efri deild: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Sams konar frv. hefur undanfarin ár verið samþ. hér á Alþ., og hygg ég, að málið hafi ágreiningslítið að þessu sinni gengið gegnum hv. Nd. Ég tel það vera hagkvæmara fyrir Íslendinga að samþ. þetta frv. nú, því að greinilegt er, að ef það yrði fellt, þá mundi það ýta undir þær óskir, sem Danir hafa nú uppi, með að ljúka svokölluðum samningum, sem vita að sambandsslitunum, hið allra fyrsta. Dönsk stjórnarvöld leita nú á um það, að þessum samningum sé lokið, en ég tel hagkvæmara að láta það doka við nú í bili, þar til betur sést, hvernig sum mál horfa við og þá einkanlega, hverjar eða hvort Íslendingar vilja gera nokkrar kröfur til Grænlands og eins hver úrslit handritamálsins verða í Danmörku. Þess vegna. tel ég, að það sé beint hagsmunamál af hálfu Íslendinga, hvað sem öðru líður, að þetta frv. verði endurnýjað nú. Sumir segja að vísu, að frekari veiðar en heimilaðar eru í frv. hafi verið þolaðar í skjóli þeirra, en ef svo er, þá er það framkvæmdaratriði, sem sjálfsagt er að kippa í lag, en er ekki ástæða þess vegna að stöðva frv. Ég legg áherzlu á, að frv. gangi greiðlega í gegn. Það er, eins og sakir standa, bráðabirgðafyrirmæli og horfir til góðs.