20.12.1949
Efri deild: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér skildist á orðum hæstv. utanrrh., að hann óskaði mjög eindregið, að þessu máli yrði lokið nú fyrir jólafrí. Mér skildist einnig á hans yfirlýsingu, að hann teldi þetta mjög mikið hagsmunamál fyrir íslenzku þjóðina. Mér hefur skilizt, að hér ætti að ljúka fundum í kvöld eða nótt, svo að vísa þessu máli til n. er annaðhvort aðeins til málamynda, því að hún mundi tæplega fá tækifæri til þess að athuga gögn þau, sem hæstv. atvmrh. minntist á, eða þá að málið verður að hefjast á þessu stigi. Met ég meira ummæli hæstv. utanrrh., sem hann sjálfsagt hefði ekki látið falla hér nema að gerhugsuðu máli, heldur en hagsmuni einstakra aðila á landinu, eins og kom fram hjá hæstv. atvmrh. Mun ég því á þessu stigi málsins álíta, að ef mjög liggur á málinu, þá væri æskilegt að setja það ekki til n. Ég vil ekki hafa á móti því að taka málið í n., en ég get ekki lofað að afgreiða málið, ef fundum verður slitið í nótt, og því síður er hægt að gefa út prentað nál.