20.12.1949
Efri deild: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mig hefur hent það stundum áður, að menn hafa heyrt mig segja töluvert meira, en ég þykist sjálfur hafa sagt. Ég bið menn fyrirgefningar á því, ef orð mín hafa hljómað svo, að þetta væri mjög mikið hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar. En ég hugði mig eingöngu hafa sagt, að Íslendingar hefðu hagsmuni af því, að frv. yrði endurnýjað nú, og að knýja ekki á, að þessum samningum við Dani yrði hraðað, vegna þess að ef þetta frv, mundi leiða til þess, að þeir yrðu að doka við, þá hefðum við einnig hagsmuni af því að samþ. það. Að segja, að þetta sé mjög mikið hagsmunamál Íslendinga, — hafi ég sagt það, sem ég ætlaði mér ekki, — þá er það áreiðanlega ofmælt. Ég gerði grein fyrir, í hverju þeir hagsmunir lægju og að ég telji, eftir atvikum, rétt að samþ. frv. Ég skal hins vegar játa, að ef einhver byggðarlög telja sig hafa orðið fyrir verulegum búsifjum af þessum sökum, horfir málið öðruvísi við, en ég ætlaði. Fram að þessu hef ég ekki heyrt, og ekki fyrr en hæstv. atvmrh. sagði það hér áðan, nokkurn mann halda því fram, að Íslendingar geti haft tjón af því einu, að Færeyingar fiskuðu á nokkrum skipum, með handfærum, í landhelgi. Menn hafa sagt, að þetta geti haft óbeinar afleiðingar o.s.frv., en að veiðarnar beinlínis yrðu til tjóns, svo að nokkru næmi, hef ég ekki heyrt fyrr. En ef svo er, þá er það nýtt viðhorf í málinu, og þá er sjálfsagt að athuga það. Ef engin gagnrök eru önnur en þau, sem hæstv. atvmrh. talaði um, þá hefði ég talið rétt, að þetta mál næði fram að ganga nefndarlaust, en úr því að hæstv. atvmrh. leggur upp úr því og þykist hafa gögn í höndunum fyrir skoðun sinni, vil ég ekki standa á móti því, að n. athugi málið. Ég geri ráð fyrir því, að ef til vill sé þetta svo einfalt, að eigi að síður yrði hægt að afgreiða málið fljótt, og ef hæstv. atvmrh. gæti lagt þessi gögn fram nú þegar, þá gæti n. athugað málið fljótlega og afgreitt það í kvöld eða fyrramálið. Ég er því miður bundinn í kvöld og get ekki verið hér á fundi, en ég vildi beina því til n., sem ég tel rétt að fái málið, að ef hún telur málið varhugavert, eftir að fram eru komin gögn, og ef hún telur, að á þeim sé að byggja, þá sé betra að láta málið dragast fram yfir áramótin, en fella það hreinlega. Hitt er ég sannfærður um, að Íslendingar hafa hagsmuni af því, eins og sakir standa, að ýta ekki um of á, að þessum lokasamningum við Dani sé flýtt, þó að þeir sæki nokkuð á það við okkur, að frá þeim sé gengið til fulls.