20.12.1949
Efri deild: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Atvmrh. (Jóhann Jósefson):

Ég get í raun og veru sagt það sama og hæstv. utanrrh., að hvað mig snertir var mér það ekki verulega ljóst, að mótmæli væru mikil fyrir hendi gegn þessari veiði Færeyinga, fyrr en nú, að það vitnaðist, að þetta mál væri á dagskrá hér á þingi. Og þau mótmæli eru í stórum dráttum eins og ég hef lýst og frá mínu kjördæmi komin. Ég teldi mig bregðast því trausti, sem kjósendur mínir hafa sýnt mér gagnvart málafylgju fyrir kjördæmið á þingi, ef ég léti undir höfuð leggjast að segja hv. d. frá þessu. Þessi mótmæli liggja í símskeyti, sem er í stjórnarráðinu og ég get náð fljótlega í. Ég geri ekki ráð fyrir, að þau séu ýtarleg, þar sem þau eru í símskeyti, en það gæti vel verið nauðsynlegt, að tekin væru upp nokkur þingvitni eða því um líkt í Vestmannaeyjum, varðandi þennan skaða, sem menn þar telja sig hafa af handfæraveiðum færeysku fiskiskipanna innan landhelgi og innan um þorsknetaveiðar. Ég spurði ýtarlega um það, hvort þetta væri ekki utan landhelgi, en var sagt, að svo væri ekki, heldur væri hér um að ræða veiði innan íslenzkrar landhelgi. Ég hef enga löngun til að tefja fyrir þessu máli, en ég geri hins vegar ekki ráð fyrir, að það geri verulegan mun fyrir íslenzka hagsmuni, hvort málið verður afgreitt nú fyrir nýár eða nokkrum dögum eftir áramót. Þær aths., sem ég hef flutt hér, eru eingöngu fram komnar af því, að ég tel mér ekki fært að þegja yfir því, þegar ég hef í höndum mér símuð mótmæli frá þeim Eyjamönnum, sem telja sér óhagræði að því, sem hér á að leyfa. En verði það ofan á, að málinu verði vísað til n., skal ég þegar í stað gera ráðstafanir til að ná í skeytið og koma því til hv. n., og þá hef ég þó a.m.k. gert tilraun til að koma málstað þessara manna hér á framfæri, áður en endanleg afgreiðsla á frv. á sér stað.