23.11.1949
Neðri deild: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

9. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, er hér ríkiseinkasala á tóbaki og hefur verið um alllangt skeið. Ríkið hefur eitt rétt til þess að flytja tóbak til landsins og verzla með það í heildsölu. Hins vegar er smásöluverzlun með þessa vöru ekki í höndum ríkisins, en í l. einkasölunnar er ákveðið, að þeir, sem kaupa tóbak frá ríkiseinkasölunni, skuli borga flutningskostnað fyrir þá vöru þaðan til annarra verzlunarstaða. Í l. um tóbakseinkasöluna eru einnig ákvæði um það, að ríkisstj. ákveði smásöluverð á tóbaki, og hefur þetta verið framkvæmt þannig, að smásöluverð á tóbaki er nú hærra á verzlunarstöðum utan Reykjavíkur heldur en í Reykjavík, sem flutningskostnaði nemur frá heildsölu til smásöluverzlana utan Reykjavíkur. Ég legg til í þessu frv., að á þessu verði gerð sú breyt., að ríkiseinkasalan borgi flutningskostnað fyrir tóbak frá heildsölunni til annarra verzlunarstaða og smásöluverðið verði hið sama á öllum stöðum á landinu. Ég vil benda á það, að þetta misjafna verð á tóbakinu til tóbakssalanna er bein afleiðing af ríkiseinkasölufyrirkomulaginu. Meðan verzlunin var frjáls með þessa vöru, þá höfðu verzlanir utan Reykjavíkur möguleika til þess að fá tóbakið beint frá útlöndum, og mun verðið á vörunni þá ekki hafa verið hærra á hinum smærri verzlunarstöðum heldur en hinum stærri, eins og nú er. M.a. af þessum ástæðum er það sanngirnismál, að ríkiseinkasalan taki á sig að borga þennan flutningskostnað og tóbakið verði selt á sama verði, hvar sem er á landinu. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, því að hér er ekki á neinn hátt um torskilið mál að ræða. Vænti ég því, að þessu máli verði vinsamlega tekið af hv. þdm., og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.