17.05.1950
Sameinað þing: 52. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

Þinglausnir

forseti (JPálm):

Það Alþingi, sem nú er að ljúka störfum, hefur staðið 185 daga og er því meðal lengstu þinga, sem haldin hafa verið. Af skýrslu þeirri, sem ég hef hér lesið, má sjá tölu þeirra mála, sem þingið hefur haft til meðferðar, en þar er í rauninni lítið sagt um afrek þingsins og aðstöðu til starfa. Hvort tveggja hefur verið mjög ólíkt því, sem áður hefur gerzt.

Þegar þingið kom saman að nýloknum almennum kosningum, hafði þáverandi ríkisstjórn sagt af sér, en starfaði til bráðabirgða. Enginn líklegur meiri hluti til og mjög óvænlegar horfur um myndun þingræðislegrar meirihlutastjórnar. Allur fjárhagur í öngþveiti og í stuttu máli vandræðahorfur með alla eðlilega þingstarfsemi. Afleiðingin hefur orðið sú, að mikill meiri hluti þingtímans hefur farið í stjórnarsamninga og deilur milli ólíkra flokka. — Það er líka í fyrsta sinn nú í sögu Alþingis, að þrjár ríkisstjórnir starfa á sama þingi og fjalla um sömu fjárlögin og önnur þau vandamál, sem fyrir eru. Þetta hefur sett sinn svip á þetta þing og valdið miklu um lengd þess. En undirrótin liggur dýpra, og henni má ekki leyna. Hún er sú, að starf Alþingis gengur nú orðið mest út á það að ráða fram úr vandræðum, fjárhagslega, atvinnulega og pólitískt. Hvernig stendur á þessu, spyr maður mann, og klögumálin ganga á víxl. — Sannleikurinn er sá, að á undangengnu góðæratímabili hafa kröfur um framkvæmdir og lífsþægindi gengið úr hófi fram. Kröfur stéttarfélaga, bæjarfélaga, héraða og pólitískra flokka. Öllum þessum kröfum hefur verið stefnt á einn stað, fyrst og fremst til Alþingis, rétt eins og það ráði yfir ótæmandi auðsuppsprettum og óendanlegum úrræðum. Þar hlaut því hringurinn fyrst að bresta, og hann var brotinn, þegar þetta þing kom saman, vegna skulda og rekstrarhalla, — af því að of mikið hafði verið undan látið og meiru sinnt en rétt var af öllum kröfunum.

Þegar svo er komið, er og heldur ekki um neitt annað, en neyðarkosti að velja. Sömu kröfum, sömu greiðslum, sömu skuldasöfnun er þó ekki hægt til lengdar að halda áfram. Á þessu þingi hafa staðið deilur um það, hver af mismunandi neyðarkostum væri skástur. Í því efni hefur meiri hlutinn tekið sína ákvörðun í bili, og verður hér ekkert um það rætt, hvort hún er sú eina rétta eða ekki.

Hitt verð ég að segja öllum flokkum, öllum stéttum og öllu landsfólki, að þegar auðsældartímabil liðinna ára er liðið, þá getur enginn vænzt þess, að allt sé áfram í sömu skorðum.

Allir verða að taka afleiðingum verka sinna í mismunandi mæli. En þó þetta sé svo, þá er þó þjóðin betur búin nú, að tækjum, byggingum, samgöngum og þekkingu, en nokkru sinni fyrr. Henni á því að geta liðið vel, ef hún kann að nota sér aðstöðuna. Þar skiptir mestu, að atvinnuvegirnir geti gengið og fólkið haft atvinnu. Þar næst árferði til sjávar og sveita og markaður fyrir afurðir. Á hinu lifir engin þjóð og sízt við Íslendingar, að eyða of mikilli orku í flokka- og stéttabaráttu, meira og minna ófrjóa, óþarfa og jafnvel fávíslega. Það er það, sem nú og áður hefur skapað Alþingi mesta örðugleika og gert því svo illa fært að ráða fljótt og vasklega fram úr þeim verkefnum, sem til þess hafa komið.

Alls þessa vegna vil ég við þessi þingslit óska þess, að allir aðilar taki með skilningi þeirri viðleitni. sem þetta þing hefur sýnt til úrræða. Að stéttir og flokkar, þjóðin öll, leitist við að nota bjargræðistímann, sumarið, sem bezt og í sem mestum friði. Reyni að njóta á sem hagfelldastan hátt þeirra náttúrugæða, sem okkar frjóa og fagra land hefur að bjóða. Deilurnar um mismunandi sjónarmið og mismunandi skoðanir verða í aðalatriðum að bíða haustsins og næsta vetrar. — Þá kann margt að liggja ljósara fyrir og verða auðveldara til úrlausnar, en nú er. — Ég vil svo óska öllum áheyrendum nær og fjær, þjóðinni allri, hamingju og friðar á þessu nýbyrjaða sumri og framvegis.

Háttvirtum alþingismönnum, hæstv. ríkisstj og öllu starfsfólki Alþingis þakka ég vinsamlega samvinnu við mig sem forseta. Ég óska ykkur gleði og farsældar á þessu nýbyrjaða sumri, bæði atvinnulega og persónulega. Utanbæjarþingmönnum óska ég góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu. Hittumst allir heilir á hausti komanda. þegar næsta þing hefst.