06.02.1950
Efri deild: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

91. mál, ættaróðal og erfðaábúð

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þrír af nm. landbn. hafa skrifað undir nál. Frv. hefur verið fyrir Nd. og er komið til okkar þaðan. Nm. voru sammála þeim breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd., en breyttu þó ýmsu, mest til skýringar á frv. og til þess að ekki yrði um það villst, við hvað er átt. Þótt fyrsta breyt. nm. sé öðruvísi orðuð, má heita, að hún sé hér um bil eins að efni til og í frv., þó ekki alveg.

Það þótti rétt að láta ekki vextina, sem áður voru taldir í d-lið, hverfa, svo að ekki þurfi að segja upp lánum, þó að leitað sé til byggingarsjóðs eða ræktunarsjóðs. — 2. gr. er látin haldast, en skýrari ákvæði tekin upp í 3. gr. um, að jörð, sem búin er að vera í eigu sömu ættar í 75 ár eða lengur, verði ættaróðal. Annars er í lögunum miðað við 100 ár, en hér við 75 ár eða lengur, og að jörðin sé enn í eigu ættarinnar, er lögin öðlast gildi. Þá er gert ráð fyrir því, að þetta ákvæði taki einnig jafnóðum til jarða, sem fullnægja þessum skilyrðum, en við töldum ekki nægilega skýrt kveðið á um það í lögunum, að svo yrði eo ipse. Um 3. brtt. er það að segja, að það láðist að breyta 100 í 75 í 27. gr. laganna, er málið var til meðferðar í Nd. Þá töldum við rétt, að þess væri getið í afsals- og veðmálabókum, að jörð sé ættaróðal. Það hefur töluverða þýðingu fyrir lánsstofnanirnar. Ég legg svo til, að frv. sé samþ. með þeim breyt., sem við höfum borið fram.