16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér skilst, að ef frv. þetta verður samþ. eins og hv. n. leggur til, með þeim breyt., sem eru á þskj. 323, þá eigi þessi sjóður ekki eingöngu að vera bjargráðasjóður fyrir landbúnaðinn, heldur einnig fyrir ýmiss konar áföll, og bendir 4. gr. eindregið til þess. En nú er ekki nægilega skýrt tekið fram í 1. gr., til hvers bæjarfélög megi nota sjóðinn. Það er ekki tekið annað fram en að það sé hallæri, ef bæjarfélög verði af náttúruvöldum svo illa stödd, að þau megna ekki af eigin rammleik að forða mönnum og skepnum frá harðrétti eða felli. Það skilst ekki nægilega vel, hvaða tjón af náttúrunnar völdum eigi að bæta, hvort það er af völdum snjóflóða, skriðufalla og jarðskjálfta og hvort annað tjón af náttúruvöldum eigi að koma hér undir, og hef ég þá sérstaklega Reykjavík í huga, því að þegar tillit er tekið til þess, hvað það er mikill hluti, sem Reykjavík leggur í sameignarsjóðinn og önnur bæjarfélög á móti ríkissjóði, þá finnst mér, að sjóðurinn ætti einnig að geta náð til annars tjóns, en af náttúruvöldum, að minnsta kosti fyrir bæjarfélögin, þegar búið er að áttfalda gjaldið í sjóðinn, svo að það kemur árlega á annað hundrað þús. kr. frá Reykjavik og jafnmikið á móti úr ríkissjóði, svo að mér finnst, að sjóðurinn ætti því að geta mætt öðrum áföllum en snjóflóðum og jarðskjálftum að því er það varðar. Þess vegna vil ég beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvort ekki sé nauðsynlegt að setja um það skýr ákvæði og tryggja, til hvers Reykjavík megi nota féð.

Þá vil ég einnig beina þeirri spurningu til hv. frsm., hvort það sé almenn regla eða hafi verið það undanfarið, að sveitarfélögin greiði þetta sjálf af sínum tekjum, eða hvort þetta sé lagt á eins og hver annar nefskattur á hvern íbúa, án tillits til efnahags. Hefði ef til vill verið rétt að taka þetta fram í löggjöfinni, einkum ef það á að fara að gera breytingar hvort sem er.

Það, sem olli því aðallega, að ég stóð hér upp, er það, að ég tel það eðlilegt, þegar svo er komið, að gjöldin eru 8-földuð og með leyfi ráðherra er hægt að hækka þau um 50% til viðbótar, að leitað sé umsagnar þm., hvort ekki sé rétt. að í stað „ráðherra“ í 10. gr. komi „fjármálaráðherra“ og eins í 8. brtt. nefndarinnar á þskj. 323, því mér finnst sannarlega nóg af því komið, þó ekki sé lengra haldið í þá átt, að láta ráðherra í annarri stjórnardeild en fjmrn. samþykkja stórfelldar útgjaldahækkanir fyrir ríkissjóð. Ég er hins vegar ekkert á móti því, að það verði látið koma í staðinn sameiginlegt leyfi viðkomandi ráðherra og fjármálaráðherra, ef nefndin gæti fallizt á það, en mér finnst það alveg ótækt að ganga fram hjá fjmrh. Reynslan hefur sýnt það, að það ástand hefur skapazt, að fjármálin hafa komizt í megnasta ólestur af því, að einstaka ráðherrar hafa óskað eftir valdi til þess að ákveða og ákveðið framlög, án þess að hafa um það nokkur samráð við fjármálaráðherra.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar núna, en ég sé að þetta frv. muni hafa í för með sér um 300 þús. kr. aukin gjöld, sem sjálfsagt þyrfti að taka á fjárlög núna, og mun ég ef til vill ræða það nánar síðar.