16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Viðvíkjandi þeirri fyrirspurn frá hv. þm. Barð., hver ætti að greiða þetta gjald, vil ég segja, að það kemur ákaflega greinilega fram í 2. gr., að það eru sveitarfélögin sjálf, sem eiga að greiða það af útsvarstekjum sínum. Það liggur ákaflega ljóst fyrir, en hv. þm. hefur bara ekki verið búinn að lesa það nógu vel.

Ég skal svo lofa að taka það til athugunar í nefndinni, hvort ástæða er til þess að setja fjármálaráðherra í stað ráðherra, eins og það er nú í gr. Ég geri ráð fyrir því, ef eitthvert sveitarfélag vill leggja einnar krónu kvöð á hvert mannsbarn, þá leggi ríkið 1/2 framlag á móti, og áður en félagsmálaráðherra, sem sjóðurinn heyrir undir, tekur á sig þá kvöð, muni hann ráðfæra sig við fjármálaráðherra, en ég skal sem sagt athuga það milli umr., hvort nefndinni finnst ástæða til þess að breyta þessu á þann veg, sem hv. þm. Barð. benti á, eða hvort ástæða þyki til þess að hafa þá báða í sameiningu, félmrh. og fjmrh.

Í þriðja lagi var það svo um Reykjavík. Já, það er alveg rétt, að gjöldin yrðu hækkuð í Reykjavík eins og annars staðar á landinu, og gjöldin eru til þess að mæta harðrétti og hallæri, en þó að Reykjavík hafi þá sérstöðu, að hún t.d. tekur 15–18 millj. kr. í útsvar af verzlunarágóða á vörum, sem fara út um land, og búast megi við því, að hún þurfi ekki að líða harðrétti eða hallæri, þá gæti þó svo farið, að stórir hópar manna þyrftu á aðstoð þessari að halda. Útgjöldin hækka, það er alveg satt, en það fer fyrst og fremst í sameiginlega sjóðinn, sem kaupstaðirnir eiga alveg sama rétt til og aðrir. Ég skal taka annað dæmi, ég skal ekki taka sjálft verulega dæmið, en ég skal samt taka dæmi. Ef það t.d. eyðileggst bryggja, sem íbúar þorps byggja afkomu sína að verulegu leyti á, þá væri það tjón af náttúruvöldum, og gæti þá bjargráðasjóðurinn hlaupið undir bagga og þannig stundum létt af byrðum ríkisins, sem stundum áður hafa fallið beint á herðar þess, eins og ég gat um áðan, t.d. þegar snjóflóðið drap féð á Snæfjallaströndinni og í sambandi við skriðuföllin í Neskaupstað. Það liggur alveg opið fyrir, að þetta ætti að bæta úr sjóðnum. Við munum nú athuga þetta nánar, en annars er það oftast svo, að það verður að vera á mati sjóðsstjórnar byggt, hvort ástæða er til þess að hlaupa undir bagga með viðkomandi aðilum, og einnig að meta það, hvenær skuli teljast hallæri og hvað harðrétti og hvað eigi að heyra undir hvað og hvar mörkin, eigi að draga. Það verður aldrei hægt að koma þessu öðruvísi fyrir en að láta það vera komið undir mati sjóðsstjórnar, það verður að vera matsatriði hverju sinni. Þetta skulum við athuga á milli umr., en ég trúi því samt varla, að Jónasi Guðmundssyni og Bjarna Ásgeirssyni takist betur en tókst 1913 að finna reglur, sem útiloka, að ekki þurfi einhvern tíma að koma til kasta sjóðsstjórnarinnar að meta.