16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Gísli Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð, herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. N–M. fyrir, það, að hann skyldi lofa, að þetta yrði tekið til nánari athugunar í n. milli umr. En út af orðum hv. þm. um Reykjavík, þá er það misskilningur, ef hann heldur það, að ég sé á nokkurn hátt að tregðast við því, að Rvík legði í sjóðinn, heldur vildi ég aðeins, að tryggt væri með ákvæðum í lögunum, til hvers hún mætti nota það fé, sem í séreignarsjóðinn kæmi. En það er ljóst, að séreignarsjóður Reykjavíkur kemur til með að aukast hraðar en annars staðar á landinu, og mér skilst, að það sé ekki hægt að nota hann nema eftir því, sem nú er tekið fram í 1. grein, og það eru þá ekki nema svo tiltölulega mjög fá atvik, sem þar undir gætu komið. En ef hins vegar ætti að fara að nota það til þess að gera við bryggjur, þá er ég hræddur um, að sjóðurinn dygði heldur skammt, því að sjóðurinn mundi þá bókstaflega þurrkast út á skömmum tíma.

En ég benti á þetta vegna þess, að mér skildist, að það þyrftu að vera ákvæði um þetta, sem taka það nánar fram, hvaða kröfurétt viðkomandi staðir eiga í þessu efni á sjóðinn yfirleitt.