20.02.1950
Efri deild: 58. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm,. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Fyrir hönd landbn. lofaði ég hv. þm. Barð. því við síðustu umr. um þetta mál að taka til athugunar á fundi n. tvær athugasemdir, sem hann þá gerði við frv. Þetta var rætt á fundi n. í morgun. Við sáum okkur ekki fært að setja inn í þessi l. nein sérákvæði um hina einstöku sérsjóði, sem héruðin eiga. Það er ætlazt til þess, að sýslun. eða bæjarstj. setji um það sérstakar reglur, sem ríkisstj. svo samþ. Þær geta orðið misjafnar í ýmsum héruðum og verða það vafalaust, en okkur fannst, að við gætum ekki gengið lengra en það, að hver sýslun. og bæjarstjórn geti sett um það sérreglur innan ramma l. og eftir því, sem ráðh. vill samþ. Hitt atriðið var það, að hv. þm. Barð. vill breyta þeim ákvæðum 10. gr., þar sem talað er um, að ráðh. geti veitt sýslun. og bæjarstj. heimild til þess að hækka bjargráðasjóðsgjaldið. Hann benti á það, að þessi l. heyra nú undir félmrn. Og þau munu væntanlega gera það áfram, en þó veit maður ekki, hvernig ríkisstj. kann að skipta með sér verkum, og sá ráðh., sem hefði með höndum yfirstjórn þessa sjóðs, gæti, án þess að fjmrh. gæti fylgzt með því, lagt þær kvaðir á ríkissjóð að leggja fé á móti, ef bæjarfélag eða sýsla vill auka sinn séreignarsjóð fljótt og meira en l. gera ráð fyrir. Má þá eftir 10. gr. hækka iðgjaldið upp í 3 kr., og er þá ríkissjóði skylt að leggja fram, auk þess, sem fyrir er mælt í 3. gr., fé, er nemur hálfu viðbótargjaldinu, og það á að renna í séreignarsjóð viðkomandi sveitarfélaga. Hv. þm. Barð. óttast, að annar ráðh. legði kvaðir á ríkissjóð, án þess að fjmrh. vissi um það. Hann benti hér réttilega á það, að fjmrh. á að bera ábyrgð á fjárreiðum ríkisins öllum saman. N. fannst geta komið til mála breyting á þessu og fól mér að tala við hv. þm. Barð., og hefur okkur komið saman um það, — það er líka í samráði við þá nm., sem á fundinum voru, — að í stað „Ráðherra“ í upphafi 10. gr. komi: „Ríkisstjórnin“. Þá er ætlazt til, að það sé bæði fjmrh. og sá ráðh.. sem þetta heyrir undir, sem veiti samþykki sitt til hækkunarinnar. Í 2. málsgr. 10. gr. stendur: „með leyfi ráðherra“, en verður þá: „með leyfi ríkisstjórnarinnar“. Ef þessar tvær breyt. verða gerðar, þá er það að okkar dómi tryggt, að hver sá ráðh., sem l. heyra undir, getur ekki gert þetta einn eða í blóra við fjmrh., heldur verður að bera það, sem gert verður, undir hann. Mér skildist, að hv. þm. Barð. gæti vel við þessar breyt. unað, enda virðist mér, að með þessu sé náð því, sem hann taldi að þyrfti að ná, góðri samvinnu milli ráðh., sem fer með þessi mál, og fjmrh. á hverjum tíma. Ég leyfi mér svo að leggja þessar brtt. fram.