20.02.1950
Efri deild: 58. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

88. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. gerði grein fyrir sinni brtt. og talaði auk þess nokkuð um 11. gr., sem hann taldi, að mundi þurfa að breyta. Ég held, að það sé óþarfi. Ég hef verið að velta því fyrir mér, hvað hér geti verið um að ræða, sem er vátryggt og mundi koma undir bætur úr sjóðnum, og ég finn þar eiginlega ekki annað, en búfé. Og sé það vátryggt eftir l. um tryggingu á búfé, þá fæst það búfé, sem ferst, bætt að þrem fjórðu, og ég held, að maður mundi ekki sjá ástæðu til að bæta það meir, ef það væri tryggt. Ég held, að það sé mjög óvenjulegt að tryggja bryggjur gegn sjóflóðum, skriðuföllum eða snjóflóðum, og fyrir því er mjög óvenjulegt að tryggja. Ég held þess vegna, að ekki sé þörf á að breyta þessu. Hvað hitt atriðið snertir, að hlutföllin milli séreignarsjóðs og sameignarsjóða verði eins og þau áður voru, þá er það við það að athuga, að þegar þessi breyting er gerð — en fyrrv. landbrh., sem hefur verið í stjórn sjóðsins í mörg ár, og núverandi formaður sjóðsstjórnar, skrifstofustjórinn í félagsmálaráðun., leggja það til, að þessi breyting sé gerð — þá vakir það að mínu áliti fyrir þeim, að það hefur viljað ganga svo til öll þau mörgu ár síðan 1913, að séreignarsjóðurinn hefur tiltölulega lítið aukizt. Það hefur verið leyft og er enn leyft viðkomandi héraðsstjórnum — sem hafa þar fyrsta rétt til þess að ráða yfir, þó að þær verði að bera það undir ráðh. síðar, — að láta beinar greiðslur úr sjóðnum til þess að mæta stórum skakkaföllum. Þetta hefur hvað eftir annað verið gert, og þess vegna eru eignir margra sýslufélaga í séreignarsjóðnum sama sem engar. Sameignarsjóðnum hefur hins vegar ekki verið ætlað að fara inn á þetta svið, en hefur fyrst og fremst verið ætlað að mæta þessum skakkaföllum með lánveitingum. Og ég held, þegar þeir hafa breytt þessum hlutföllum, þá hafi þeir gert það til að efla þann hluta sjóðsins, sem fyrst og fremst var ætlað að vaxa, svo að hann gæti mætt þessum stærri skakkaföllum með því að hlaupa undir bagga með landsmönnum, en að minni áherzla hafi verið lögð á það að láta þann sjóð vaxa, sem gat horfið, ef stærri skakkaföll urðu í því héraði, ef viðkomandi héraðsstjórnir lögðu á það mikla áherzlu. Ég álít þetta, án þess að ég sé þó alveg viss um, að þetta hafi vakað fyrir þeim. Ég held, að þegar þessir tveir menn, og sérstaklega landbrh., sem búinn er að vera í stjórn sjóðsins í meir en 20 ár og fylgjast með honum á seinni tíma — og hinir stjórnarnefndarmennirnir hafa fylgzt með honum líka — þegar það er eiginlega öll stjórn sjóðsins, sem óskaði eftir þessari breyt. á l., sem gert er ráð fyrir í frv., þá held ég, að við eigum ekki að breyta þessu ákvæði frv. nú, heldur eigum við að lofa sameiginlega sjóðnum, sem á að vera lánsstofnun, að vaxa, en láta hina sjóðina heldur vaxa hægar, þ.e. séreignarsjóðina, sem reynslan hefur sýnt, að geta orðið eyðslufé, — án þess að ég átelji það að neinu leyti, að svo hefur orðið um séreignarsjóðina, því að það mun ekki hafa verið látið fé úr þeim sjóðum, nema full ástæða hafi verið til. En reynslan hefur orðið sú, að þeir sjóðir hafa vaxið lítið. Þess vegna álit ég, að við eigum ekki að breyta þessu hlutfalli, og þess vegna ekki að samþ. þessa brtt. frá hv. 4. landsk. þm.