30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þótt hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ) hafi fært fyrir því rök af hálfu Alþfl., hversu óeðlilegt við teljum að framlengja þá skatta, sem á voru lagðir, m.a. til þess að greiða útflutningsuppbætur á sjávarafurðirnar, þá finnst mér hlýða að segja hér nokkur orð, því að satt að segja varð ég undrandi, þegar ég sá frv. og vissi um það, sem fram ætti að koma. Ég held og, að ég verði eigi einn um þá undrun. Ég held, að um landsmenn megi segja hið sama og okkur þm. Alþfl. Það var talið málinu til gildis, þegar hin stórkostlegasta gengislækkun, sem gerð hefur verið í álfunni, var samþ. og nú er fram komin, að þá mætti fella niður ýmis útgjöld og skatta, sem um var kvartað og á voru lagðir til þess að halda við framleiðslustarfseminni í landinu. Hygg ég, að margir, sem blöskraði söluskatturinn, bílaskatturinn o.fl., hafi þó kennt minni sársauka þá en nú, því að menn bjuggust við, að þessir skattar mundu verða felldir niður. En sú hefur eigi orðið raunin á af hálfu hæstv. ríkisstj. Er einkennilegt, að hálfum mánuði eftir að framkvæmd hefur verið hin mikla gengislækkun, skuli vera haldið við öllum þeim sköttum, sem á voru lagðir áður, og jafnvel auknir, eins og hv. þm. V-Ísf. minntist á. En e.t.v. er það svo, að mönnum hafi dottið í hug, þegar gengislækkunin var framkvæmd, að til þess að mæta áhrifum lækkunarinnar á afkomu ríkisins yrði að halda við sköttum, sem áður voru lagðir á.

Hæstv. fjmrh. lét í það skina, að af gengislækkuninni mundi leiða stórfelld aukin útgjöld ríkissjóðs. Engan þarf það að undra. Mér hefur verið sagt af einum þeirra embættismanna ríkisins, sem vinna að atvinnumálunum, að aukin útgjöld hans til samgöngu- og hafnarmála muni nema frá 20–70% við gengislækkunina, og eru þetta eigi litlir liðir á fjárl., svo að enginn skyldi undrast, þó að við þá þyrfti að bæta. Þetta er það, sem allir menn vita. Hefði átt að gera sér þessa grein, þegar gengislækkunin var ákveðin, og láta eigi í það skína, að hægt yrði að fella niður þá skatta, sem undanfarin ár hafa verið lagðir á, undan hefur verið kvartað og orsök hafa orðið til ásakana, er beint hefur verið að þeim mönnum, sem þátt áttu í að leggja þá á. Það er síður en svo farið inn á þær leiðir, heldur var látið skína í það, að nú yrði unnt að létta af þeim sköttum, sem vondir menn stóðu að, og væri sú leið ófær til frambúðar. Mig skyldi eigi undra, þótt þetta yrði fyrsta sporið á óhappaleið í fjármálum ríkisins. Mig skyldi eigi undra, þó að haldið yrði uppi fyrri sköttum og jafnvel við þá bætt. Mig skyldi eigi undra, þó að upp styngi kollinum og framkvæmt yrði að nýju ábyrgðarverð á útflutningsvörum sjávarútvegsins og upp kæmu raddir um að undanskilja frjálsan gjaldeyri til útvegsmanna. Þá yrði haldið áfram á sömu braut, ofan á gengislækkunina. Hitt er svo annað mál, eins og hv. þm. V-Ísf. gat um, að eigi er þetta vænlegt til að halda niðri verðlaginu í landinu, s.s. það að viðhalda þeim sköttum, sem verka mest til aukningar dýrtíðarinnar innanlands, t.d. söluskattinum. Það er talið, eins og hv. þm. V-Ísf. gat um, að viðhald söluskattsins mundi nema 3%, og hverju menn svo sem spá um hækkun dýrtíðarinnar, þá er ég þeirrar skoðunar og styrkist æ betur í henni, að af gengislækkuninni muni leiða 15–20% dýrtíðaraukningu, a.m.k., sé söluskatturinn talinn með. — Verð ég því að lýsa yfir undrun minni, að frv. þetta skuli vera borið fram, um leið og ég lýsi yfir andstöðu við það.

Loks var búizt við því, að skatturinn á ferðagjaldeyri mundi falla niður, því að erlendur gjaldeyrir hækkar í verði um 75%. Nei, það fæst eigi. Því er nú 25% gjaldi haldið við, svo að gjaldeyrir til ferðalaga hækkar um 100%, frá því er var, áður en gjaldeyrisskatturinn var lagður á.

Þótt skatturinn af bílakaupum lækki í 35%, þá verður skatturinn hærri nú en áður. Hv. þm. V-Ísf. tók fram, að lítið yrði um innflutning bifreiða, og vill, að þeim aðilum verði ívilnað, er mesta kröfu eiga. En það er eigi gert með þessari löggjöf, heldur er hinum ívilnað, sem fá leyfi fyrir öðrum nauðsynjavarningi og verða þó að greiða hærra verð.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að það mundi þurfa að verja einhverju fé á fjárl. til framkvæmdasjóðs ríkisins, vegna þess að ætlunin væri að verja hluta eignaraukaskatts til annars innflutnings og til kaupa á landbúnaðartækjum. Já, ég býst við, að til þess að bæta þetta upp, þurfi að afla nýs fjár á fjárl. En hvaða nauður rak núverandi stjórnarflokka til að afnema eignaraukaskattinn? Finnst mér eigi hægt að ætlast til þess af alþm., að þeir fari nú að greiða atkv. með nýjum fjárframlögum og jafnvel einum viðbótarskatti, áður en fyrir liggur, hverju stóreignaskatturinn muni nema. Það var spurt um það í umræðunum, hverju hann kæmi til með að nema, og einnig, hvort athugun hefði farið fram á því. Það var dauðaþögn hjá hv. flm. frv. og stuðningsmönnum þess og hæstv. ríkisstj. Þeir gátu eigi gert sér grein fyrir því, hvort skatturinn í augum þeirra, sem afgreiddu frv., mundi gefa meira en hinar upprunalegu till. námu að viðbættum eignaraukaskattinum. Ég get eigi dæmt um það. Þó hef ég rætt við fróðan skattamann um þessi efni. Skoðun hans er sú, að minna fé muni fást til opinberra þarfa skv. l. og eftir niðurfellingu eignaraukaskattsins heldur en hefði frv. verið samþ., eins og upprunalega lágu till. fyrir um. Það er öldungis óverjanlegt, að hæstv. ríkisstj. geti eigi gefið þm. einhverja áætlun og samanburð. Ég þykist vera viss um, ef leitað hefði verið til skattstjóranna og ríkisskattanefndar, að þá hefði verið hægt að gera einhverja áætlun um, hverju skatturinn mundi nema til opinberra þarfa og hverju mismunurinn kæmi til með að nema til hækkunar eða lækkunar frá frv., eins og það lá fyrir. Ég verð að vera sammála hv. þm. V-Ísf. í því, að meðan hæstv. ríkisstj. sýnir eigi þm., hversu afgreiða eigi fjárlög með sparnaði og að öðru leyti hversu hagað verði athöfnum ríkisins, sé eigi hægt að fara fram á það, að við framlengjum þessa skatta. Þar er mælzt til of mikils. Geri ég ráð fyrir, að stjórnarflokkarnir verði við þessum tilmælum. Það er víst, að við andstæðingar hæstv. ríkisstj. sjáum okkur eigi fært að greiða atkv. með þessu frv. Mikið má vera, ef þetta verður eigi til þess að skapa nýja óánægju í landinu, og mun það verða til að verka á móti þeim tilgangi l., sem ætlazt var til í öndverðu með ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. — Jafnvel þótt ég og flokkur minn höfum verið andvígir gengislækkuninni, hefðum við viljað vona, að hægt yrði að draga úr sköttunum, samtímis því, að gengislækkunin gæti orðið til viðréttingar í íslenzku þjóðlífi. En það, sem ég óttast mest af öllu, er það, að áfram verði höggvið í sama knérunn, en þetta verði ekki til að reisa við íslenzkt fjármálalíf, og þá er verr farið en heima setið.