30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum hæstv. ríkisstj., að tefja ekki umræður. Ég geri ráð fyrir, að stjórnarflokkarnir muni standa eins og veggur um þetta frv., og það er gamla sagan héðan frá Alþingi, að þeir munu ekki vera komnir fram með frv. til þess að breyta ákvörðunum sínum og láta sannfærast, hversu góð og gild rök sem færð yrðu fram gegn því, og er þannig tilgangslaust að heyja langa orrahríð, en við munum hins vegar láta í ljós hispurslaust skoðun okkar á þessu máli.

Það sem var höfuðinnihald í ræðu hæstv. ráðh., var þetta, að því færi víðs fjarri, að nokkru sinni hefði verið gefið undir fótinn með það, að söluskatturinn og aðrir tollar mundu lækka strax, þótt gengislækkunin yrði samþykkt. Ég verð nú að segja, að yfirleitt mun næði mér og öðrum hafa komið á óvart þessi till. um framlengingu á söluskattinum, og það stafar ekki af öðru en þeim málflutningi, sem uppi hefur verið hafður, bæði í grg. hagfræðinganna og í ræðum þeirra, sem mæltu með gengislækkuninni hér á Alþingi. Hv. 3. landsk. þm. færði rök að því, að hagfræðingarnir reikni með niðurfellingu söluskattsins, og skal ég ekki endurtaka rökstuðning hans. En hæstv. fjmrh. minntist á eitt atriði, sem hann virtist telja afgerandi - að í 19. gr. fjárl. sé reiknað með söluskattinum og fyrrv. fjmrh. hefði ekki gert ráð fyrir niðurgreiðslum til útflutningsins, en samt reiknað með 331/2 milljón til dýrtíðarráðstafana. En það er nú eins og vant er í samstjórn, að fjmrh. fer nú nokkuð sínu fram hvað snertir fjárlög, og sá atvmrh., sem nú er, kynni nú að hafa eitthvað við þetta að athuga. Söluskatturinn eykur dýrtíðina í landinu og vinnur þannig gegn tilgangi gengislækkunarl., og það er þannig ekki að ófyrirsynju, að við tölum um þetta. Hagfræðingarnir áætla hvort tveggja í senn, að innflutningurinn aukist verulega og fljótlega og útflutningsverðmætin vaxi að miklum mun. Á þessu byggist kerfi hagfræðinganna. Og þeir áætla tekjur í hækkuðum verðtolli vegna gengislækkunarinnar frá 31–36 millj. kr. Það þarf því engan að undra, þótt við gerðum ráð fyrir því, að það yrði talið óhætt að fella söluskattinn niður. Og hæstv. ráðh. mega reikna með því, að meginþorri manna mun hafa búizt við því, að þessi skattur mundi niður falla. Við Alþflm. lýstum þannig ekki yfir undrun okkar út í loftið. Og beint og óbeint kemur þessi skattur til að verka öfugt við þann tilgang, sem gengislækkuninni er ætlað að ná.

Hæstv. atvmrh. lýsti yfir því, að hann bæri nokkurn ugg í brjósti um það, að hið fræðilega kerfi hagfræðinganna gæti brostið. Það gleddi mig ekkert fremur en hann. En mig uggir jafnvel enn meira um það en hann. — Þá talaði hæstv. atvmrh. einnig um það, að til lítils hefði verið að minnast á sparnaðartillögur við Alþfl. Ég segi nú aftur, af því að það er löngum látið klingja, að formaður Alþfl. hafi verið forsrh. í fráfarandi stjórn, að það er svo um samstjórnir, að einn flokkur fær þar ekki öllu áorkað. En ég vona, að ég ljóstri ekki upp neinu leyndarmáli, þótt ég segi, að við ráðh. Alþfl. reyndum að fá því framgengt við samningu fjárl., að útgjöld yrðu lækkuð. (Atvmrh.: Hvaða útgjöld?) Ýmis útgjöld, og þá einkum til framkvæmda innanlands. (Atvmrh.: Og máske sparað á vinnulaunum og embættum?) Já, ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. fái þessum spurningum senn svarað, ef hann er farið að bila minnið, og að við meðferð þessara fjárl. láti Alþfl. í ljós skoðun sína um það, hvað hægt verði að spara og hvað ekki. Og vera má, að skoðanir Alþfl. og borgaraflokkanna í því efni verði ekki frekar en áður í fullu samræmi og það komi í ljós, að góðar ráðleggingar Alþfl. verði lítils metnar af hv. stjórnarflokkum.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta, en áður en ég sezt niður vil ég minna á það, að okkur Alþýðuflokksmönnum hefur frá upphafi þótt skorta mikið á, að það hafi legið fyrir nákvæmir útreikningar varðandi verkanir gengislækkunarinnar á þjóðarbúskapinn og þann þátt, sem hún á að eiga í því að afla ríkinu tekna. En þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir höfum við engar upplýsingar getað fengið um þetta. Enn fremur er ég hræddur um, að of lítið hafi verið gert að því að fá upplýst, hve miklu þessi skattur mundi raunverulega nema. En það er engan veginn að ófyrirsynju, að farið er fram á, að slíkt verði athugað áður, en gengið er frá afgreiðslu fjárl.