30.03.1950
Neðri deild: 77. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Það verður aðeins örstutt aths. — Ég held, að eigi geti farið margt fram hjá hv. þm. Hafnf. (EmJ), jafnskynsömum manni. Ég las 13. gr. l. um ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.. og er hún sönnun þess, að söluskatturinn sé ætlaður til að standa straum af fiskábyrgðinni eftir 1. marz.

Hann sagði réttilega, að 13. gr. frv. fer fram á, að III. kafli l. nr. 100/1948 gildi til ársloka 1950. Nú þarf hann eigi að fara í nýja bók. Annars hef ég þskj. að láni frá hv. þm. Fer ég í sama þskj., en þar er aths. við 13. gr., í grg. frv., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Tekjur af gjöldum þessum (o: leyfisgjöldum) voru á síðasta ári um 8 millj. kr., þegar frá eru dregin gjöld af heimilistækjum.“ Ég vil eigi fara í gegnum hv. þm. í neinu máli. En áður segir svo: „Talið er, að fjárhæð sú, er ríkissjóður tekur að sér að ábyrgjast til 1. marz 1950, nemi 11.5 millj. króna, ef allt kæmi jafnskjótt til útflutnings, sem framleitt er á þessum tíma. Samkvæmt venju er lítið flutt út af bátafiski mánuðina janúar og febrúar, og má því ætla, að aðeins lítill hluti ofangreindrar fjárhæðar falli til greiðslu vegna útflutnings þessa mánuði. Lagt er til að framlengja III. kafla laga nr. 100/1948, og er gert ráð fyrir, að tekjur af leyfisgjöldum samkvæmt 30. gr. laganna standi straum af fiskábyrgðinni til 1. marz.“ Aðalatriðið er þetta, að tekjur af leyfisgjöldum, er III. kaflinn fjallar um, en hann er bæði um þau og söluskattinn, voru ætlaðar til þess að standa straum af fiskábyrgðinni til 1. marz, en eigi tekjurnar af söluskattinum, því að þeim var búið að ráðstafa. Þáv. fjmrh. áætlaði þær 36 millj. kr., og voru útgjöldin byggð á því. Við erum því ekki að skapa nýjar tekjur með þessum l.

Vegna ræðu hv. 3. landsk. þm. (GÞG) vil ég segja það, að ekkert verður um það sagt, og reynslan verður að skera úr því, hvort gengislækkunarl. fá staðizt 14–15% dýrtíðarhækkun. Við höfum eigi enn þá orðið fyrir óláni vegna fiskverðslækkunar, og ef það stæðist að miða við 10 d. pr. enskt pund af hraðfrystum fiski, þá hef ég von um, að framleiðslan hefði borið sig.