30.03.1950
Neðri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort það er rétt af hv. þm. að vera undrandi yfir þessu frv., sem hér er fram komið frá hæstv. ríkisstj. Ég held, að það sé ekki við neinu öðru að búast en þessu, þegar það ráð, sem tekið var með gengislækkuninni, var þannig, að það gat aldrei orðið nein lækning á þeirri meinsemd, sem lækna þurfti, en þegar samt var haldið fast við þá trú, þá var ekki um annað að gera, en halda áfram á sömu braut. Hér um árið voru hækkaðir tollar til að draga úr dýrtíðinni, og síðan voru teknir upp styrkir til að forðast gengislækkun. Sumir, sem voru raunsæir, viðurkenndu, að gjaldeyrisleyfagjöldin væru ekkert annað en dulbúin gengislækkun. Svo kom gengislækkunin sjálf, og þá átti það að vera endanlega meðalið. Ekki var sinnt neinum viðvörunum frá neinum, sem móti því frv. var, að það væri verið að skera sjúklinginn upp við vitlausum sjúkdómi. Hvað gerist svo nú? Það er haldið áfram, gamla sagan byrjuð á ný. Það er verið að telja mönnum trú um, að í sambandi við gengislækkunarlögin sé verið að draga úr tollum, en það hefur komið í ljós, að tollar hækka. Síðan er nú komið með till. um að halda söluskattinum við, halda við þeim tollum, sem verka mest á dýrtíðina. Samtímis því er komið með till. frá ríkisstj., að leyfagjaldið, sú nýja dulbúna gengislækkun, skuli halda áfram. M.ö.o., þegar nú er verið að ljúka við eina gengislækkunina, þá er verið að byrja á sömu brautinni með nýja gengislækkun. Eftir nokkurn tíma koma fleiri gengislækkanir og áframhald á söluskatti, ef ríkisstj. og flokkar hennar fást ekki til að athuga, hvar meinsemdin er.

Nú held ég, að ekki þurfi mörg orð um það, að þessar álögur eru í fyrsta lagi óréttmætar. Þetta bitnar á almenningi og þeim, sem sízt skyldi. Í öðru lagi vantar þá nú fiskábyrgðina, en þó samtímis sýnt, að fiskiútvegurinn á Íslandi heldur ekki áfram án hennar, og í þriðja lagi verður alveg hreint auðséð, með því atvinnuástandi, sem hér er að verða, að þessi tekjuöflun bilar að meira eða minna leyti, einfaldlega vegna þess að innflutningurinn, sem reiknað er með, kemur ekki til með að standast, ef ekki er hugsað fyrir að auka útflutninginn, og sem stendur eru þær einu ráðstafanir, sem meiri hluti Alþ. hefur gert, að stofna sjávarútveginum í hættu með því að kippa fiskábyrgðinni í burtu. Ég held þess vegna, að það þurfi ekki að halda um það langa ræðu og ætla ekki að halda um það langa ræðu — hve óréttmætar þessar álögur eru og ná ekki því marki, sem ríkisstj. ætlar sér með því. Ég vil aðeins skjóta því inn í sambandi við a-liðinn, gjaldeyrisleyfin, að beina þeirri fyrirspurn til ríkisstj., hvernig ríkisstj. hefur hugsað sér innheimtu á þeim leyfisgjöldum, þegar menn hafa keypt slík gjaldeyrisleyfi, fyrst með 75% og síðan með 25% álagi, sem sé innleysanlegt í bönkunum, eftir að gengislækkunin hefur farið fram, hvort ekki sé rétt að gera ráðstafanir til þess, að þeir menn sæti ekki þyngri álögum en þeim, sem ríkisstj. leggur til þarna, 25%.

Þá vildi ég út frá því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að það hefði ekki orðið samkomulag um neinar aðrar aðferðir til þess að afla tekna, segja það, að ég held, að það hafi lítið reynt á slíkar aðferðir enn þá, held, að þetta sé fyrsta tekjuöflunartill., sem ríkisstj. kemur með. Satt að segja virðist mér ekki fjarri lagi, þegar svo þungar byrðar eru lagðar á almenning sem gert hefur verið með gengislækkuninni og gera á með þessu, að það væri athugað alvarlega að skera niður eitthvað af skrifstofubákni ríkisins. Ég heyrði því nýlega við umræður kastað milli þm. í d., að það væri nú ekki rétt efnilegt að skera þannig niður hver fyrir öðrum, en ég vil benda á, að það er ekki hægt og þjóðin getur ekki sætt sig við það, að prédikað sé yfir henni að taka á sig fórnir og ríkið sýni ekki neinn lit á því. Það má t.d. benda á, að fyrir löngu hefði vel mátt fella mikið saman og spara í ríkisstofnunum. T.d. hefðu tóbakseinkasalan og áfengisverzlunin fyrir löngu átt að vera sameinaðar, en í staðinn hefur ríkið komið upp nýjum stofnunum, eins og t.d. innkaupastofnun ríkisins. Nú, þetta er hlutur, sem verður að athuga. Enn fremur er til stórt bákn hjá ríkinu, fjárhagsráð, sem með öllum þess deildum kostar áreiðanlega ekki minna en 5–6 milljónir og þjóðin gæti að skaðlausu algerlega losað sig við. Ég vil benda á, að því hefur a.m.k. verið kastað fram hér í þinginu, að ekki sé til meiri hluti fyrir þeim aðferðum, sem hér hafa komið fram. Það má vel vera, að útgjöld ríkisins verði að vaxa, en að svo miklu leyti sem þau þurfa að vaxa, þurfa þau að vaxa til hagnýtra framkvæmda, en engin leið er að leggja í slíkt án þess að skorið sé niður eitthvað af þessu skrifstofubákni ríkisins. Í næsta mánuði verða fjárl. væntanlega tekin til umræðu og afgreiðslu, og í sambandi við þau væri eðlilegt, að ákvarðanir væru teknar nokkuð jafnhliða um sparnað og nýjar framkvæmdir. Mér finnst þess vegna alveg ástæðulaust fyrir ríkisstj. að vera nú að fara fram á framlengingu þessa óeðlilega dýrtíðarskatts, og vil ég því leyfa mér að leggja hér fram brtt. við 1. lið, þannig, að í staðinn fyrir „31. desember 1950“ komi í 1. mgr.: 30. apríl 1950. — Ég sé enga ástæðu til þess fyrir ríkisstj. að vera að reka svo á eftir því, að þessi lög séu afgreidd fyrir allt árið, að því sé endilega slegið föstu nú. Mér finnst rétt að gefa tækifæri til þess að kanna í þinginu, hvort ekki megi ná samkomulagi um ráðstafanir, sem sýndu almenningi fram á, að sýndur væri einhver litur á því að framkvæma þær prédikanir, sem látnar eru dynja á honum viðvíkjandi hans persónulega lífi. Ég vil í þessu sambandi enn fremur benda á, að það verður líka óhjákvæmilegt, fyrr eða síðar, að athuga um annars háttar tekjuöflun, en þessa. Við vitum ósköp vel, að því er snertir þær tekjuaflanir, sem ríkið getur ekki hugsað sér að sleppa nú, t.d. einkasölu á áfengi og tóbaki, að ekki skuli svipaðar tekjuaflanir hafa verið teknar í þjónustu almennings, t.d. sælgætis- og gosdrykkjaframleiðsla. Ríkið ætti sannarlega að hafa slíkar gróðalindir í sínum höndum og reka þessi fyrirtæki, en láta ekki eingöngu einstaklingana í þjóðfélaginu sitja að þeim arði. Ég held að óhjákvæmilegt sé að athuga þess háttar tekjuöflun, áður en svona skattur er lagður á almenning, eins og með framlengingu söluskattsins, en í þessu sambandi komum við að því, sem alltaf er aðalágreiningsefnið við slíka tekjuöflun, og skal ég ekki ræða það neitt. Meðan ekki verður að því horfið að taka verzlunargróðann til ríkisins beint, þá verður ekki hægt að skapa hér örugga fjárhagsafkomu. Ef hann á að fá að haldast við hliðina á þyngdum álögum á almenning, þýðir það síaukna dýrtíð í landinu, sem almenningur veltir af sér, ef hann hefur kraft til, og þannig veltur þetta allt niður eftir brekkunni.

Ég tek eftir því, að í þessum umr. er rétt eins og sumir hæstv. ráðh., sérstaklega atvmrh., hafi uppgötvað nýjan hlut síðan gengislækkunin fór fram. Þeir tala um slæmar markaðshorfur og að núverandi verðlagshorfur séu mjög óefnilegar. Ég veit ekki betur, en þær upplýsingar hafi legið fyrir áður en gengislækkunin var samþykkt, en nú er allt í einu farið að tala um þetta og koma fram með þetta. Ég veit ekki, hvort þeir uppgötva þetta svona seint, hvar meinsemdin liggur, eða hvort eigi að nota þetta til nýrra álagna á þjóðina. Nú, þegar minnzt er á söluskatt, er talað um, að verðlagshorfurnar séu eitt af því, sem valdi því, að leggja verði söluskatt á, en það vissu menn áður en gengislækkunin var samþykkt. Ég álít sem sagt enga þörf á því fyrir ríkisstj. að pína fram nú að koma þessum söluskatti á, heldur eigi að reyna að ganga úr skugga um, hvort hægt sé að fá meiri hluta í þinginu fyrir sanngjarnari tekjuöflun, en þessari. Þessi aðferð, sem hér er beitt nú með þessu frv. af ríkisstj., er ekki aðeins óréttlát, heldur meira að segja gagnslaus. Grundvöllurinn, sem þetta á að standa á, bilar, þar sem álögurnar á almenning verða það þungar, að hann kiknar undir þeim.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál lengur nú, en vildi leyfa mér að mælast til þess, að hæstv. forseti leitaði afbrigða fyrir þessari brtt., sem ég hef minnzt á.