30.03.1950
Neðri deild: 78. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Finnur Jónsson:

Ég ætla ekki að lengja þessar umræður neitt verulega, en hygg, að rétt sé að benda á eitt atriði enn í sambandi við afgreiðslu þessa máls, áður en þessari umr. verður lokið. Það hefur víst ekki komið fram við umræðu þessa máls, að bátaútvegsmenn og sjómenn telja — og hafa gert um það samþykkt í samtökum sínum —, að þeir þurfi að fá 93 aura verð fyrir fiskinn, slægðan með haus, til þess að það samsvari því 75 aura verði, sem þeir höfðu í byrjun þessa árs. Þessa samþykkt byggja sjómenn á því, að tilkostnaðurinn aukist sem svari 8 aurum á kíló vegna þeirrar verðhækkunar, sem nú þegar er að skella á eða er skollin á út af ýmsu, sem þarf til fiskveiða. Á ég þar meðal annars við verulega hækkun á olíu sem mun hækka nú á morgun upp í 640 kr. tonnið. Enn fremur telja þeir, að þau hlunnindi, sem þeim voru veitt með 5. gr. l. nr. 1 frá 1950, nemi um 10 aurum á kíló. Í annan stað eru svo hraðfrystihúsin, sem telja sig ekki geta keypt fiskinn fyrir sama verð og hann hefur verið borgaður frá áramótum, eða 75 aura kíló. Það er þess vegna allt útlit fyrir, að það sé þarna 18 aura mismunur að minnsta kosti á því, sem hraðfrystihúsin mundu vilja kaupa fiskinn fyrir í mesta lagi, og bátaútvegsmenn og sjómenn mundu vilja afla þarna fyrir, eftir að gengisbreytingalögin voru samþykkt. Nú hef ég þar að auki heyrt, án þess að ég vilji leggja verulegan trúnað á það, að af hálfu hraðfrystihúsanna sé talið, að þau vanti svona um 40 aura á enskt pund, með núverandi markaðshorfum, til þess að geta borgað meira að segja þetta 75 aura verð, en það mundi þýða, ef þeirra málstaður réði, eins og hann hefur verið settur fram í umræðunum við útvegsmenn, að þá vantaði um það bil 15 aura til þess að geta borgað fiskverðið, sem þeir borguðu frá 1. janúar þar til gengisbreytingarlögin öðluðust gildi. Ég hygg, að í þessu sé falin ákaflega mikil hætta, eða sú, að veiðarnar hljóti annaðhvort að stöðvast eða draga mikið úr þeim, ef ekki kemur eitthvað sérstakt fyrir næstu daga. Mér er kunnugt um, að bátaútvegsmenn hafa átt nokkur samtöl við hæstv. ríkisstj. út af þessu, en er ekki kunnugt um, að þeir hafi fengið þar nokkra áheyrn sinna mála. Og ég veit ekki, hvort þeir hafa verið með uppástungur, sem rétt væri fyrir ríkisstj. að fallast á svona rétt eftir að gengisbreytingarfrv. hefur verið knúið fram. Ég hygg, að þeirra uppástungur hafi aðallega verið um áframhaldandi svartamarkaðsgjaldeyri eða slíkt, til þess að þurfa ekki að koma fram með kröfur um áframhaldandi ríkisábyrgð á bátaútveginum með einhverju verði. Nú er auðséð, að ef íshúsin treysta sér ekki til að kaupa fiskinn með því verði, sem hlutarútvegsmenn telja sig þurfa að fá, torveldar samþykkt þessa frv. þetta mál enn að verulegum mun. Ef það er rétt, að afgreiðsla frv. muni valda aukinni dýrtíð um sem næst 47 af hundraði, þá er það vitað mál, að laun hljóta að hækka þegar í stað eða mjög fljótlega, og gerir það þá enn erfiðari samskiptin milli bátaútvegsmanna og hlutarsjómanna annars vegar og íshúseigenda hins vegar. Ég er síður en svo kátur yfir því, að þessi vandræði skuli vera fram undan. En það er eins og allar þær illspár, sem hafðar voru um það, þegar þetta frv. var til afgreiðslu, ætli að rætast, og raunar fyrr, en nokkurn mann grunaði. Ég hef talið rétt að leiða athygli ríkisstj. að þessum sérstaka þætti og þessari sérstöku hættu, sem er yfirvofandi með afgreiðslu þessa frv.