30.03.1950
Neðri deild: 79. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langar umræður um málið, en ég flyt hér eina brtt. við 1. gr. Hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ) flutti við 1. umr. brtt. um að fella niður a- og b-lið 1. gr., en hún náði ekki samþykki. Hins vegar er það vitað um bílainnflutninginn, að hann er almennt ekki nauðsynlegur, og ætti raunar að banna hann, en meðan hann er leyfður, þá er rétt, að bifreiðarnar fari til manna, sem hafa atvinnu af því að keyra, og vildi ég því leggja til, að á eftir orðunum „35% af leyfisfjárhæð“ í b-lið komi: „enda sé eigi öðrum en atvinnubifreiðastjórum veitt leyfi.“ Þetta er ófært öðruvísi. Hið opinbera þarf ekki fleiri bíla í bráð og þá ekki einstaklingar, en ég álít öryggi atvinnubílstjóra ekki of mikið, þótt þeir þurfi ekki að sækja bila sína á svartan markað. Það komu fram hjá hv. þm. Ísaf. (FJ) aðvaranir í sömu átt og ég hef áður bent á, en ég veit, að það er erfitt að fá um þetta umr. nú, og skal ég því ekki fjölyrða um það, en ég býst við, að brátt gefist tilefni til að ræða þessi mál. — Ég vil svo biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir brtt. minni.