30.03.1950
Efri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. hefur lagt til, að málinu verði nú vísað til n. og að umr. verði ekki haldið lengur áfram í kvöld, og skal ég stytta mál mitt eftir því, sem ég get.

Hv. þm. Vestm. (JJós) fullyrti, að það væri rangt með farið hjá mér, að söluskatturinn hefði allur farið til að greiða uppbæturnar á sjávarafurðirnar, og færði hann því það til stuðnings, að í frv., sem hann sem fjmrh. lagði fyrir Alþ., þegar það kom saman í haust, hefði söluskatturinn verið tekinn inn tekjumegin, en ekki hefði verið gert ráð fyrir útgjöldum vegna fiskábyrgðarinnar gjaldamegin. Ég vildi í því sambandi mega minna hv. þm. Vestm. á það, að jafnvel þótt fjmrh. semji þannig frv., sem hann leggur fyrir Alþ., þá segir það aðeins hans óskir í þessu máli, en hins vegar alls ekki neitt um það, hvað Alþ. hefur hugsað sér, þegar l. voru sett. Þegar l. um fiskábyrgðina voru fyrst sett, á þinginu 1947–1948, var í þeim sérstakur kafli, sem heitir: Um álagningu söluskatts vegna ábyrgðar á fiskafurðum og niðurgreiðslu á innlendum vörum. — Söluskatturinn var lægri þá í byrjun, en var hækkaður á síðasta ári, og hann hefur alltaf verið við þetta tengdur, enda á lagður í því skyni, sem heiti VII. kafla þeirra l. segir til um, hvað sem fjmrh. leggur til, þegar hann semur sitt fjárlfrv. Ég skal á það benda, að síðan þetta var samþ., hefur kjötniðurgreiðsla lækkað mjög verulega, svo að sá hluti dýrtíðarsjóðs, sem ætlaður var til þeirra greiðslna, hefur þurft minna fé, og hefur þá verið hægt að láta meira ganga til uppbótanna á útflutningsvörurnar. Hv. þm. drap einnig á það, að í frv. um styrk til vélbátaútvegsins, sem þáverandi ríkisstj. lagði fyrir Alþ. rétt fyrir áramótin síðustu, hefði verið gert ráð fyrir sérstökum skatti, hækkun á söluskattinum, til þess að mæta því, ef ábyrgðin yrði látin standa til vertíðarloka og ekki yrðu farnar aðrar leiðir. En eingöngu í því tilfelli þyrfti, eftir dómi þáv. fjmrh., að hækka söluskattinn til þess að mæta þessu upp í 27% úr 6%, sem hann áætlaði, að ég hygg varlega, að mundi gefa 40 til 42 millj. kr. í tekjur og hann þá taldi, að mundi nægja til þess að halda útgerðinni gangandi án gengislækkunar. Ég heyrði umr. um þetta í hv. Nd., þar sem talað var um, að það mundi vera mjög ríflega áætlað, að til þessarar ábyrgðar þyrfti að verja svo miklu fé. Nú sýnir reynslan, að skattar þeir og tollar og söluskatturinn, sem um ræðir í frv., hækka sennilega mjög nálægt því, sem þáv. fjmrh. og núv. hæstv. viðskmrh. taldi að þyrfti að verða, til þess að hægt væri að halda áfram ábyrgðargreiðslum og afstýra gengislækkun. Það er hér um bil sama upphæð, eitthvað í kringum 40 millj. kr., sem vænta má, — ef áætlun sú, sem í fjárlfrv. er, er rétt, sem ég hef nú borið brigður á, — að tekjur ríkissjóðs mundu aukast vegna gengislækkunarinnar. Annars get ég fallizt á það með hv. þm. Vestm., að það er í sjálfu sér ekki mikil ástæða til þess að deila um þessa hluti. Það hefur aldrei verið framkvæmt þannig lagað skúffusystem hjá ríkissjóði, að ákveðnar tekjur væru bundnar við ákveðnar framkvæmdir, því að slíkt er meira á pappírnum, eins og honum er kunnugt um.

Hv. þm. Barð. (GJ) skýrði frá því, og var það svar við því, er ég spurði um í fyrri ræðu minni, að fjvn. hefði ekki átt kost á því að yfirfara áætlun fjmrh. um aukin útgjöld, nauðsynlegar hækkanir útgjalda á fjárl., og hann hefði ekki heldur gert sér grein fyrir því, hvað tollar mundu aukast vegna gengislækkunarinnar. Ég verð nú að segja það, að úr því að Alþ. er ekki farið að sjá neitt frá hv. fjvn. enn, virðist það vera það minnsta, sem fjmrh. gat gert, að bera sig saman við fjvn. um þessi atriði, áður en hann lagði sínar till. fyrir Alþ. — Eftir þessar upplýsingar vék hv. þm. Barð. að mér nokkrum orðum, og taldi hann mig og minn flokk tvímælalaust eiga sök á því, hvernig fjármálum ríkisins væri komið, a.m.k. hvað þann hluta þeirra snerti, að ég og minn flokkur hefðum stutt að því — og ég vil skjóta því inn, ásamt nálega 50% af hans flokki og hæstv. forseta þessarar d., sem reri þar einn á borð fyrir sinn flokk — að til bráðabirgða var gerð nokkur samræming á launum starfsmanna hins opinbera, til þess að nálgast þær breyt., sem almennt hafa orðið á launakjörum manna í landinu frá þeim tíma, að launal. voru sett. Ég hygg, að sú bráðabirgðaheimild, sem þar var veitt, gildi ekki lengur, en þar til fjárl. hafa verið afgreidd frá Alþ., og þar hefur hv. þm. Barð. sem form. fjvn. allra manna bezta aðstöðu til að gera sin sjónarmið gildandi. Ég geymi mér því að kljást við hann um þessi efni, þar til málið kemur á ný til umr. á Alþ.

Í þeirri lauslegu áætlun, sem hæstv. landbrh. gerði grein fyrir við framsögu málsins, um hækkanir á gjöldum ríkissjóðs, þá var það ekki nema tæplega 1/3, sem hann áætlaði vegna þessa stórkostlega hættuverks. Hv. þm. Barð. sagði, og ég hygg, að hann mæli þar rétt, að krafa þjóðarinnar í sambandi við þessar álögur og þá bagga, sem á hana eru lagðir með gengislækkuninni, sé sú, að það verði að spara alla óþarfa eyðslu og að ekki verði fleiri menn hafðir við vinnuna yfirleitt, en þarf að vera til þess að leysa hana sómasamlega af hendi. Ég hygg, að þetta sé rétt, og ég er sammála honum um þetta. Það vill líka svo vel til, að hann hefur sérstaklega góða aðstöðu til að sýna vilja sinn í þessum efnum, sem form. hv. fjvn., athugandi hvern einstakan lið fjárl., getandi komið þar að sínum athugasemdum og bent á, hvað laga megi. Ég ætla, að við álítum báðir, að þessir menn eigi að vera svo vel launaðir, að þeir geti unnið sín störf sambærilega við aðra menn, sem vinna sín störf, og það svo vel, að ekki verði að þeim fundið. Ég vil mega bæta því við, að ég hygg, að þjóðin óski meiri aðgerða í þessum efnum, en eingöngu að spara fé ríkissjóðs, sem að sjálfsögðu er skylt að gera. Ég hygg, að þjóðin vænti þess, að þeir, sem að útgerð standa og þeim öðrum atvinnuvegum, sem hlúð er að með þessum ráðstöfunum, gæti ekki síður fulls sparnaðar og hagsýni í meðferð fjár. Og ég tel fulla ástæðu til þess og hygg, að fullt tilefni sé til þess, að ýtarlega sé rannsakað, hvort ekki megi spara mjög verulega útgjaldaliði í rekstri útgerðarinnar með því að breyta til um skipulagshætti. Það er vitað mál, að þau fyrirtæki eru hin mestu gróðafyrirtæki í ýmsum héruðum, sem inna af hendi ýmiss konar þjónustu í sambandi við sjávarútveginn, t.d. fyrirtæki, sem sumpart afla honum nauðsynja og selja honum þær og sumpart sjá um viðgerðir á framleiðslutækjum hans o.s.frv. Ég held líka, að sú mikla dreifing, sem er á þessum fyrirtækjum, sé óheppileg og að mikið mætti spara með því að koma þar á meiri hagsýni í verkaskiptingu, þannig að ekki séu hafðir fleiri menn við þessa vinnu, en þörf krefur. Heldur hv. þm. Barð., að ekki vinni fleira fólk við verzlun og viðskipti í landinu, en þörf er fyrir til að sjá um dreifingu varanna til þessara 130–140 þús. manna, sem í landinu búa? Ég hitti enga menn, sem ekki játa það í viðræðum, að það sé stórkostlega miklu fleira fólk, sem hefur vinnu sína — og hana í mörgum tilfellum mjög arðvænlega af því einu að dreifa vörum, er til landsins koma, til fólksins. Ég er ekki í neinum vafa um það, að sé þarna sparað og þess gætt, að hver maður hafi fulla vinnu, og líka þess gætt, að enginn maður hafi meiri laun en sem svarar til vinnuafkasta hans, þá má spara stórfé. Ég vona, að hv. þm. Barð. hafi þetta líka í huga, þegar athugað er, hvar spara megi. Ég skal ekki koma mér hjá því að fylgja honum þar að máli, ef rétt er stefnt. Hv. þm. Barð. fullyrti, að svo væri komið hag bátaútgerðarmanna yfirleitt, að þeir hafi eytt öllum sínum eignum, lánum og styrkjum, og því sé ekki von til þess, að þeir rétti fljótt við. Ég hygg þetta fullmikið sagt, að því er einstaka menn, sem við þetta fást, snertir. En sé nú þetta svona hörmulegt eins og hv. þm. lýsir því, og sé það rétt, sem hæstv. landbrh. var að segja áðan, að mér skilst, að það sé, eins og hann orðaði það, óvíst, hvort gengislækkunin stimuleri nokkuð þennan atvinnurekstur, þá verður mér á að spyrja: Að hverju eru þeir betur settir eftir gengislækkunina en áður? Eru þeir þá í sama farinu, og er það skoðun þessara hv. þm. og hæstv. ráðh.? (Landbrh.: Ég orðaði þetta ekki svona.) Ég benti á það, að eftir áætlun hæstv. viðskmrh. hefði verið hægt að komast áfram til vertíðarloka án gengislækkunar, ef skattarnir hefðu verið auknir nálægt því, sem fram kemur, að aukning þeirra verður við gengislækkunina. Gengislækkunin kemur svo til viðbótar, en samt lýsir hæstv. ráðh. ástandinu svona. Ég verð að segja það í fyllstu alvöru, að mér finnst þetta bæði furðulegt og sorglegt. Þegar þetta gengislækkunarfrv. var samþ. hér, þá létu ýmsir af stuðningsmönnum þess nokkurn ótta í ljós um það, hvort l. mundu ná tilgangi sínum, og sá ótti var við það bundinn, að launastéttir landsins mundu ekki una við l. og gera ráðstafanir til að hækka kaup sitt meira, en þau gera ráð fyrir. Nú hafa launastéttirnar mér vitanlega ekkert gert enn þá til þess að brjóta þessi l. niður. Það lítur út fyrir, að þær ætli sér að bíða átekta og sjá, hvernig l. reynast og hvort fyrirheitin, sem gefin voru í sambandi við setningu l., verði haldin. En þótt svona kynnt sé á þessum stöðum, þá segir hæstv. ráðh., að viðhorfið hafi gerbreytzt í hans augum frá því, að l. voru samþ. og þar til nú. Er það svo, að þeir, sem samþ. hafa l. um gengislækkunina, hafi gengið að því í blindni, en slíkt mætti ætla, eftir því sem nú kemur fram? Áður en l. eru sett, er það fært fram þeim til stuðnings, að þegar þau séu komin í gegn, þá muni framleiðslustörfin aukast og við munum geta aukið innflutning, en af því aukast tekjur ríkissjóðs sjálfkrafa, og þá hverfi vöruskorturinn og verðlagið færist í eðlilegt horf, en svartur markaður hverfi og frjáls verzlun lagfæri þetta allt á skömmum tíma. Vertíðin hefur að vísu verið bágborin, en hún er ekki liðin enn, og þar að auki ætti það ekki að geta raskað öllum þessum útreikningum. Nú stendur svo á, að útflutningur verður ekki eins mikill og ráð var fyrir gert og þess vegna verður útflutningsverðmætið minna og innflutningsmagnið minna og tollarnir svíkja, og af því leiðir, að þeim mun minna, sem inn er flutt af vörum, því betur blómgast svartur markaður, ef rétt er lýst. Ég verð að segja það, að mér finnst kvíðvænlegt að heyra þessar lýsingar hæstv. ráðh., og ég vildi mega vona, að þetta væri bara herbragð — ekki, að hann meinti það, heldur til þess að tryggja það að nú verði hægt að sjá hag ríkissjóðs vel borgið með því, að hann hafi svo riflegar tekjur, að hann geti leyft sér eitt og annað, sem hann ella mundi ekki geta. Varla hefur hæstv. landbrh. skipt svo um skoðun á þessum hálfum mánuði síðan l. voru sett, að um annað en þetta sé að ræða.

Hv. þm. Barð. sagði í sambandi við sölu togaranna til útlanda, að sú sala mundi verða til þess, að keypt yrðu ný og betri framleiðslutæki, svo að meiri atvinnuaukning yrði eftir en áður. Ég vildi mjög óska þess, að þetta væri rétt, og ég vænti þess, að hann upplýsi síðar í umr., hver trygging sé fyrir því, að svo verði. Ef haldið verður áfram að nota þá gróðamöguleika að selja skipin til útlanda fyrir 75% hærra verð í íslenzkum krónum en áður, þá sýnist mér óvænlega horfa um framleiðsluaukninguna, sem er grundvöllurinn undir gengisbreytingarl. Því skiptir miklu máli í mínum augum að tryggja stórvirk framleiðslutæki til landsins.