30.03.1950
Efri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Forseti. Mér þykir rétt að svara nokkrum orðum hv. 4. þm. Reykv. (HG), og skal ég reyna að stytta mál mitt.

Hv. þm. sagði, að baráttan fyrir kauphækkunum til embættismanna hefði verið til samræmingar við launakjör annarra manna í landinu. Ég skal ekki fara langt út í þetta nú, en vil vísa til þess, sem ég sagði um það mál í sameinuðu þingi, þar sem ég hrakti með gögnum, sem fyrir lágu, að hér er ekki um samræmingu að ræða, heldur kapphlaup til þess að tryggja sig gegn því áfram, sem þessar stéttir óhjákvæmilega fengju við gengisfellinguna í landinu, því að það var fyrir fram sókn til betri lífskjara, til þess að af þeim væri ekki tekið hlutfallslega við gengisfellinguna, eins og öðrum launþegum í landinu. Hv. þm. sagði einnig, að ég gæti sem form. fjvn. ráðið mestu um það, því að mér væri kunnugt um ástæður þessara manna, laun þeirra, vinnutíma o.s.frv., og einmitt vegna þess starfs, sem ég hef í fjvn., þá þykist ég geta upplýst hv. þm. um það, að ég hef orðið undrandi að sjá, að til eru embættismenn, sem eru leystir frá störfum með fullum launum, en hafa síðan tekið full laun hjá ríkinu fyrir störf, sem þeir voru of gamlir til að vinna við. Ég vil aðeins sýna fram á, að það er þessi reynsla og þekking mín á störfunum, sem hefur komið mér á þessa skoðun. — Ég vil benda hv. 4. þm. Reykv. á annað í þessu máli. Ég lagði m.a. mikla vinnu í það á s.l. vetri að reikna út, hversu skrifstofubákn ríkisins hefur aukizt frá því um áramótin 1946–1947 og til ársins 1949, og við komumst að þeirri niðurstöðu, að það hefði verið um 20 millj. kr. Þetta var kostnaður vegna nýrra stofnana, nýrra manna, hækkaðra launa o.s.frv., sumpart vegna l., sem hafa verið samþ. hér á Alþ. og flokkur hv. þm. hefur mjög fylgt. Við gerðum róttækar till. til þess m.a. að fá skorið niður við afgreiðslu fjárl., og ég vil minna hv. þm. á það, að flestum þessum till. til niðurskurðar var fulltrúi hans flokks á móti, og í mörgum tilfellum, þó að ótrúlegt sé, varð Sjálfstfl. að fá atkv. frá kommúnistum til þess að koma fram niðurskurði, svo mikið var ábyrgðarleysi Alþfl. Það var stjórnarandstaðan, ábyrgðarminnstu mennirnir í þinginu, sem urðu að bjarga málinu vegna andúðar Alþfl. Þetta ætti hv. þm. að muna, þegar hann talar um, að ekki sé ástæða til að framlengja skattana.

Það var að nokkru leyti rétt, sem hv. þm. Vestm. sagði áðan, að það var of mikil bjartsýni um tekjurnar, en það er líka rétt, að það var sannarlega of mikil bjartsýni um eyðsluna í sambandi við afgreiðslu fjárl. s síðasta þingi. Ég vil benda hv. 4. þm. Reykv. á það einstaka atriði, að það komu fram við 2. umr. um 100 brtt. frá fjvn., flestar til lækkunar á ríkisgjöldunum, sem voru óþörf útgjöld. En hvað gerist? Það gerist það, að einmitt hæstv. samgmrh. fær frestað atkvgr. um 14 daga og ætlar sér að kúga alla ríkisstj. og þingið til að taka 80 till. til baka, vegna þess að hann gat ekki fellt sig við, að það væri skorið niður. Þetta veit hv. þm., svo að það var ekki af viljaleysi hjá form. fjvn. í þessu máli, að það var ekki afgr. öðruvísi. — Þá sagði hv. þm., að hann vænti þess, að útvegurinn gætti fyllsta sparnaðar. Ég er honum sammála. En heldur hv. þm., að það hafi verið af einhverju gáleysi eða viljaleysi hjá þeim útgerðarmönnum, sem síðan 1945 hafa séð sjóði sína renna út í sandinn? Þeir áttu milljónir þegar stríðinu lauk til að tryggja atvinnuna í landinu, en sáu mánuð eftir mánuð, að þetta var að renna út í sandinn, m.a. vegna þess, að gengið var vitlaust skráð og vegna síhækkandi krafna þeirra manna, sem unnu við útveginn. Þess vegna fór sem fór. Atvinnutækin hafa verið bundin á höndum og fótum af ýmsum aðilum, sem þeir hafa hvorki viljað né getað ráðið við, og þeir töldu sig ekki hafa leyfi til að stöðva slík atvinnutæki, sem voru að eyða sjóðunum, sem þeir líka höfðu skattfrelsi til að safna á stríðstímanum. En nú, þegar allt er farið, bæði peningar og traust, hvað er þá eftir? Þá er ekkert til að byrja með. Ég veit ekki, hvort hv. þm. veit hvaða erfiðleikar liggja í því að fá ýmsar stéttir í landinu, aðrar en embættismenn, til þess að vinna eins og fyrir stríð. Ég þekki nokkuð síðustu samninga; það var ekki ánægjulegt að stöðva nýja flotann, en hvernig fóru þeir samningar? Ég man eftir því, að ég var kallaður út eina nótt til að koma á samkomulagi við eina af þessum stéttum. Mér datt ekki í hug að bera ábyrgð á því að undirskrifa slíkt samkomulag. Það þurfti að semja við menn, sem voru að byrja sitt lífsstarf, um hærri laun, en hæstaréttardómarar hafa, og þrátt fyrir það þurfti að beygja sig undir það, að þeir þyrftu ekki að vera nema 3/4 af árinu við vinnu. Þessa aðstöðu er búið að skapa í landinu. Peningavelta manna hefur skapað það ástand, að enginn maður hefur viljað beita sér við vinnu eins mikið og hann gerði áður. Ég þekki mörg dæmi þess í iðnaði, framleiðslu og víðar, að það þarf 4 menn til þess að afkasta sama verki og einn maður gerði áður, og það er ekki hægt að vinna það upp með öðru en bættri aðstöðu og betri vélakrafti. Af þessum ástæðum eru of margin menn við sérhver störf, og þetta ástand lagast ekki fyrr en menn hafa skilning á því að taka málin öðrum tökum, en var meðan nógir voru peningar. Ég get sagt hv. þm. það, að ef hann heldur, að það þurfi færri menn með því að hafa landsverzlun, þá er ég honum ósammála um það atriði. Ég þekki vel þau fyrirtæki, sem hafa verið rekin af ríkinu, einnig í verzlun, t.d. landssmiðjuna. Silfurtún og sérleyfisferðirnar undir stjórn Alþfl., sem sífellt hafa verið að tapa á hinum mestu veltiárum, þegar aðrir þénuðu milljónir. Þessi fyrirtæki töpuðu þá, en það varð að taka inn skatta til að standa undir þeim rekstri, svo að ég er ekki sammála um, að það verði lagað á þann hátt. En þekkir hv. þm. yfirleitt það áhættuspil sem það er að leggja peninga í stórútgerð? Veit hann yfirleitt, að í einni söluferð getur verið halli upp á 100–150 þús. kr.? Og hversu lengi getur útgerðin gengið, ef margar söluferðir eru þannig, en það er sannleikur, að sum þessi skip hafa ekki selt fyrir meira en 3.000–4.000 pund og hafa tapað 100–150 þús. kr. Ef hv. þm. trúir mér ekki, þá ætti hann að ganga til flokksbróður síns, hv. þm. Hafnf., til að fá að vita, hvernig útkoman hefur verið hjá þeim skipum, sem hann hefur með að gera, og mundu þá kannske opnast augu hans fyrir því, að það hefði verið nauðsynlegt að laga ranglætið, sem hér hefur verið í sambandi við gjaldeyristökuna. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. 4. þm. Reykv., ef í staðinn fyrir gengisfellinguna hefði verið tekin upp ensk mynt, hvað hefði þá skeð. Það hefði skeð það, að allir þegnar þessa þjóðfélags hefðu orðið að sætta sig við þau lífskjör, sem enska þjóðin sættir sig við í dag. Ef við hefðum tekið upp dollar, þá hefðum við orðið að sætta okkur við þau lífskjör, sem dollaraþjóðirnar sætta sig við í dag, og þá hefði hlutur verkamanna og sjómanna áreiðanlega ekki orðið neitt svipað því, sem hann er í dag, þó að gengið hafi fallið. Ég þekki ákaflega vel, hvað er hlutur enskra sjómanna í dag og hvað hægt er að kaupa af lífsgæðum fyrir það, sem þeir bera úr býtum fyrir hverja ferð, samanborið við íslenzka sjómenn, og það er lítið á þessum tímum.

Að síðustu spurði hv. þm., hver væri trygging fyrir því, að nýju skipin fengjust. Það er honum vel ljóst, að í smíðum eru nú fyrir ríkisstj. 10 ný skip og þessum skipum er ekki ráðstafað enn, en þau verða því aðeins gerð út, að einhverjir aðilar á Íslandi vilji eignast þessi skip og taka áhættuna á að reka þau, bæjarfélög eða einstaklingar, nema því aðeins að hann hugsi sér, að ríkissjóður reki þau. Mér er vel kunnugt, að þeir aðilar, sem hafa selt þessi skip til útlanda, hafa það í hyggju að eignast ný skip í staðinn fyrir þau, sem þeir hafa selt. Ég vil hins vegar leyfa mér að benda hv. þm. á, að einmitt þessi skip, sem hér um ræðir, eru flutt til landsins á sínum tíma og kostuðu þá 80.000 pund. Þau eru nú seld eftir 30 ár út úr landinu kannske fyrir jafnmargar krónur. En það er ekki nema hálfsögð sagan, heldur hafa bæði þessi skip tapað allan þennan tíma meira en nemur mismuninum á genginu, og það fé hefur runnið til einhverra aðila á Íslandi, og einmitt vegna þess áfalls þá standa þeir menn, sem áttu þessi skip, miklu verr að vígi til áframhaldandi baráttu á þessu stigi til blessunar fyrir íslenzka verkamenn og sjómenn.