31.03.1950
Efri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Nál. er ekki komið hér frá 2. minni hl. n. Ég gat ekki orðið samferða meiri hl. hv. fjhn., sem vill samþ. frv. óbreytt. Ég legg hins vegar til, að frv. verði fellt, og hef ekki enn þá a.m.k. lagt fram brtt. við það. Ég benti á það í umr. um málið hér í gærkvöld, að fyrir gengislækkunina var frv. um það mál þann veg flutt, að ætla mátti, að um tvennt væri að velja, annars vegar það að viðhalda tollunum og jafnvel hækka tollana og greiða áfram uppbætur á útflutningsafurðirnar, og hins vegar gengislækkun, sem þá væntanlega yrði til þess, að létta mætti tollana eða a.m.k. komast hjá því að hækka þá nokkuð. Ef þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., verður að l.. þá er ekki um að ræða í þessum efnum annaðhvort eða, heldur hvort tveggja, bæði gengislækkun og stórfellda tollaaukningu, sem að sjálfsögðu verður til þess, að dýrtíðin eykst enn meir í landinu en ella mundi, og framleiðslukostnaðurinn þar að auki vex að sama skapi. Ég reyndi í gærkvöld að sýna fram á það hér um bil, hversu miklum upphæðum þessar tollahækkanir mundu nema, og komst að þeirri niðurstöðu. að það mundi vera 30–40 millj. kr.. miðað við það fjárlagafrv., sem lagt var fyrir hæstv. Alþ. á síðasta hausti. Í því frv. er gert ráð fyrir 36 millj. kr. tekjuafgangi á rekstrarreikningi, en um 5 millj. kr. afgangi á tekju- og gjaldareikningi, enda var þess getið hér í gær af hæstv. landbrh., sem reifaði málið, að ástæðan til þess, að nú þyrfti enn á hækkuðum tekjum að halda, væri sú, að við nánari athugun á frv. hefði sýnt sig, að það þyrfti að bæta inn í frv. eitthvað á milli 30 og 45 millj. kr. útgjöldum. Jafnframt lét hann þess getið, að eftir að fjárlagafrv. var samið. og að mér skildist einkum nú síðustu dagana eftir að gengislækkunin var samþ., þá hefði ríkisstj. farið að athuga innflutningsáætlunina og komizt að þeirri niðurstöðu, að það innflutningsmagn, sem byggt var á þegar fjárlagafrv. var samið, mundi tæpast fást, og þar af leiðandi mundu innflutningsgjöldin sennilega vera of hátt reiknuð í fjárlagafrv. Nánari skýringar á þessu fengust svo ekki frá hæstv. ráðh.

Ég skal játa það, að það er nauðsynlegt, a.m.k. sem meginregla, að freista þess að ná fullum jöfnuði á fjárl., og ég fyrir mitt leyti vil styðja að því. En meðan ekkert liggur gleggra fyrir í þessum efnum en nú er, get ég fyrir mitt leyti ekki með nokkru móti fallizt á það að verða með þessu frv.

Ég skal geta þess, að ég leitaði eftir því við hv. meðnm. mína í fjhn., hvort þeir teldu ekki fært að lækka söluskattinn niður í 2 eða 3%. En þeir töldu, að það kæmi ekki til athugunar einu sinni. — Í hv. Nd. var borin fram brtt. við 1. gr. frv., þess efnis, að niður skyldi falla skatturinn á ferðagjaldeyri og sérskattur á innfluttar bifreiðar. Og á það var bent þar og það rökstutt ýtarlega, að með þessum sköttum. sem þar var lagt til að fella niður, væri verið að taka upp eins konar tvöfalt verðgildi á peningum, og varað við því, bæði vegna þess, hver áhrif þetta hefði út á við og af því að hér væri byrjun á stefnu, sem væri varhugaverð í framkvæmd. Þessi till. var felld í Nd. Ég veit, að þýðingarlaust er að bera hana fram hér, þar sem ég tel víst, að hún yrði felld, og mun því ekki gera það.

Annars tel ég, að eðlilegra hefði verið að bíða með tollahækkanir, þar til séð er, hvernig fer um endanlega afgreiðslu fjárlaga. Ég hefði því talið óþarft að framlengja þessi gjöld lengur en til loka apríl, er séð verður, hvernig fjárl. líta út. Ég hef enn ekki borið fram till. í þessa átt, en ég vildi heyra, hver svör þetta fær. Að öðru leyti vísa ég til þess, sem ég sagði í gær, og nál. frá mér á þskj. 517, er mun vera í útbýtingu.