31.03.1950
Efri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins fáein orð, sem ég vildi segja út af því, sem fram hefur komið hjá hv. frsm. minni hl.

Það gekk í nokkuð svipaða stefnu hjá þeim báðum, þeim fannst óþarfi að framlengja þessa tolla. Hv. 1. landsk. sagði, að samkvæmt sinum áætlunum mundu verðtollur og söluskattur hækka um 50 millj. kr. á ári vegna gengislækkunarinnar, og væru 3/4 hlutar þess tekjuauki fyrir ríkissjóð á þessu ári, ef allt væri með felldu. Enn fremur taldi hann, að ríkissjóður mundi spara 35 millj. kr. miðað við það fé, sem lagt var út í fyrra vegna fiskábyrgðarl. og mundi því hafa 70–80 millj. kr. meira til að moða úr en í fyrra, ef frv. yrði samþ. Nú er það hæpið að áætla hækkunina á verðtolli og söluskatti eins hátt og hv. þm. gerir, ég hef ekki þorað það, heldur áætlað hana minni, en það munar engum ósköpum, og mætti því eins leggja tölur hv. þm. til grundvallar. En þó að það sé gert, er augljóst, að ekki má tefla tæpar. Í fyrra var greiðsluhalli ríkissjóðs 30–40 millj. kr., en hann verður nú að hverfa, og auk þess þarf að bæta við gjaldahliðina 30–40 millj. kr. Ríkissjóður þarf því á þessum auknu tekjum að halda, og ríkisstj. er ekki að framlengja þetta að gamni sinu, heldur af brýnni nauðsyn, til þess að vega upp á móti halla fyrri ára og aukningu útgjalda. Menn hafa verið að fitla við það, að þessi útgjaldaaukning væri afleiðing gengislækkunarinnar. En það ber að undirstrika það, að minna en helmingur gjaldaaukningarinnar stafar af gengislækkuninni. Hitt stafar af öðrum ráðstöfunum, sem Alþ. hefur gert með samþykki þessara hv. þm. Er þar um að ræða launauppbætur til opinberra starfsmanna og mörg fleiri útgjöld, sem eru ríkari ástæða en gengislækkunin. Ef Alþ. og hv. þm. hefðu stillt sig um að bæta þessum útgjöldum við, hefði verið hægt að fella niður verulegan hluta af söluskattinum. Útgjaldaaukningin er að sáralitlu leyti vegna gengislækkunarinnar, heldur vegna ýmissa útgjalda, sem ákveðin hafa verið í öðrum l. Mér finnst, að hv. þm. sé skylt að íhuga þetta. Við sjáum það líka í hendi okkar, ef þetta er rólega skoðað, að það hefur aldrei staðið til, að gengislækkunin orkaði þannig, að hægt væri að strika út söluskattinn. Í fjárlagafrv., sem legið hefur fyrir í marga mánuði, er söluskatturinn áætlaður 36 millj. kr. tekjumegin, en engir liðir taldir gjaldamegin. Fjárlagafrv. sýnir, að þörf var á öllum söluskattinum til þess að mæta útgjöldunum með gamla laginu, og þó eru ekki á fjárlfrv. útgjöld, sem ákveðin hafa verið eftir að það var lagt fram og skipta millj. kr. Þótt gengið sé út frá því, að verðtollurinn hækki um 17 millj. kr. eða 22 millj. kr., eins og hæst hefur verið áætlað, nægir sá tekjuauki ekki til þess að strika út 36 millj. kr. og til þess að bæta inn hækkunum vegna gengislækkunarinnar, launaupþbóta og annarra ráðstafana, sem nema 30–40 millj. kr. Það þarf ekkert reikningshöfuð til þess að sjá það. Hitt er svo annað mál, hvort betra hefði verið, að gengið hefði ekki verið lækkað; þm. verða að gera nauðsynlegar ráðstafanir á þeim grundvelli, sem er fyrir hendi. En þess ber að gæta, að ef gengið hefði ekki verið lækkað, hefði þurft nýjar tekjur í útflutningsuppbætur, líka fyrir togarana, og til greiðslu launauppbóta og annarra útgjalda. Sú tekjuöflun hefði sennilega þurft að nema 100–200 millj. kr. Þetta er atriði, sem ekki snertir þetta mál, en ég segi þetta af því, að hv. 1. landsk. gaf tilefni til þess.

Af því að ég stóð upp, vildi ég aðeins rifja upp ástæðurnar til þess, að nauðsynlegt er að framlengja söluskattinn. Það er ekki að ófyrirsynju gert, eins og haldið hefur verið fram, og þess er ekki að vænta, að ríkissjóður fái stórkostlegar afgangstekjur, eins og hv. 1. landsk. orðaði það; því miður er ekki hægt að reikna með því. Það má að vísu draga úr rekstrarkostnaði ríkissjóðs, og er full ástæða til að gera það, en þó að það heppnaðist, kemur ekki til sparnaðar á þessu ári. Ef lagðar verða niður stofnanir, t.d., og fólki sagt upp vinnu, hefur það ákveðinn uppsagnarfrest o.s.frv. Það er ekki vert að gefa tyllivonir, því að vitað er, hvernig þetta hefur gengið, og ekki hefur þeim mönnum og flokkum, er um þetta tala nú, gengið betur að framkvæma það en öðrum. En það er rétt, að nauðsynlegt er að reyna að draga úr þessum útgjöldum, eins og frekast er unnt.

Ég vil að lokum minnast á eitt atriði, sem ég gat um í Nd. Ég lít svo á, að ef frv. verður samþ., beri að framkvæma l. þannig, að þeir, sem þurft hafa að kaupa gjaldeyri eftir gengisbreyt., greiði nýju gjöldin — það eru þarna nokkrir dagar á milli —, því að þau eru miðuð við gengisbreytinguna.