31.03.1950
Efri deild: 85. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Forseti. Ég skal ekki tefja umr. með því að ræða málið almennt eða principíelt. Hv. 1. landsk. hefur gert grein fyrir afstöðu Sósfl. til frv. og lýst yfir því, að hann er andvígur þessum tekjuöflunum. En þó að ég sé á móti frv. í heild, hef ég viljað freista þess að bera fram brtt. við það á þskj. 514. Það er að vísu oftast svo um mál eins og þetta, að erfitt er að fá breyt. samþ., þó að viðurkennt sé, að þær séu réttmætar, en ég held, að þau ákvæði, er brtt. mín fjallar um, séu að meira eða minna leyti komin inn í frv. vegna þess, að flm. hafa ekki gert sér ljóst ástandið í þessum efnum.

Það hefur verið álit manna undanfarið, að akstur leigubifreiða væri mikil tekjulind. Það er því eðlilegt, er vantað hefur tekjur, að leitað hefur verið eftir þeim hjá þessum atvinnurekstri. Er þessi dýrtíðarlög voru sett, var allmikið lagt á þessa atvinnugrein með gjaldeyrisskatti, söluskatti á bifreiðar og veltuskatti á atvinnuveginn sjálfan, ekki aðeins á nettótekjur, heldur á brúttótekjur. Það mun að vísu rétt, að á tímabili var það arðvænleg atvinna að aka leigubifreiðum. Vegna þess urðu bifreiðar eftirsóttar, og ef til vill hefur það átt sinn þátt í braski með bifreiðar, en fyrirkomulagið á innflutningsverzluninni átti líka sinn þátt í því, að bifreiðar voru seldar með miklum hagnaði, vegna þess hve eftirspurnin var mikil. Ég held þó, að óhætt sé að segja, að þetta ástand sé nú breytt, svo að síður en svo sé ástæða til þess að eltast við þennan atvinnurekstur, þó að ríkissjóði sé tekna vant. Mér er kunnugt um það, að eins og nú er komið, er afkoma þessa rekstrar ekki betri, en í ýmsum öðrum atvinnugreinum, og varðandi rekstur vörubifreiða er ástandið verra, en hvað fólksbifreiðarnar snertir. Ég vænti þess, að hið áberandi atvinnuleysi meðal vörubifreiðastjóra í fyrra hafi ekki farið fram hjá hv. þm. Hvað fólksbifreiðastjóra snertir, hefur ástandið verið skárra, en nú virðist sækja þar í sama horfið og hjá vörubifreiðastjórum. Af þessu leiðir, að þau gjöld, sem lögð voru á með l. 1948, koma nú tilfinnanlegar niður en þá. Nú, þegar búið er að framkvæma „bjargráð“ gengislækkunarinnar, nær ekki nokkurri átt, að þessum gjöldum verði haldið áfram. Í fyrsta lagi er það fyrir neðan allar hellur, að eftir að gengislækkunin hefur verið framkvæmd, skuli vera haldið við nokkrum gengislækkunarskatti. Því var haldið fram. að gengislækkunin væri nauðsynleg, af því að gengið væri rangt, en nú á gengið að vera „rétt“, og hvers vegna á þá að halda við gengislækkunarskatti og þar með enn lægra gengi á vissum vörum? Þetta nær ekki nokkurri átt, og hefur líka verið að nokkru leyti viðurkennt, þar sem felldur hefur verið niður þessi skattur af leyfum fyrir heimilisvélum, varahlutum til bifreiða og bifreiðagúmmíi og nú af leyfum fyrir jeppa- og vörubifreiðum og kvikmyndum.

En hvað á það að þýða að leggja þennan skatt áfram á leyfi fyrir fólksbifreiðum? Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess, og ekki heldur að ástæða sé til að leggja hann á leyfi til utanferða. Ég tel, að fella eigi þennan skatt alveg burt, og þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt. um það. Fyrri brtt. á þskj. 514 fjallar um það, að þótt það verði ofan á, að l. verði framlengd, þá verði 30. gr. felld niður, svo að þessi skattur falli alveg úr sögunni, og enn fremur er þar lagt til, að 31. gr. verði felld niður, en hún kveður á um 20% skatt á sölu bifreiða innanlands. Þegar það ákvæði var sett 1948, var álitið, að það mundi gefa ríkissjóði miklar tekjur. Mér skilst, að þetta hafi orðið vonbrigði og tekjur af skattinum minni, en ætlað var. Nú er einnig svo komið, að ég held að fullyrða megi, að bilasölur fari minnkandi, og þess vegna líka tekjur af skattinum. Það getur því ekki verið afgerandi fyrir ríkissjóð, að honum sé haldið. Hins vegar gerir hann bifreiðastjórum erfiðara fyrir, en ella að endurnýja bifreiðar sínar eða skipta á bifreiðum, en svo gæti verið, að þeir hefðu möguleika á að fá í skiptum hæfari bifreið, þó að þeir fengju ekki innflutningsleyfi fyrir nýjum bifreiðum. Þar sem ekki er um meira fjárhagsatriði að ræða fyrir ríkissjóð, finnst mér ástæðulaust að halda þessu við og torvelda með því fjölmennum hópi manna atvinnu sína.

Síðari till., sem ég ber fram á þskj. 514, fjallar um söluskattinn, sem mælt er fyrir um í b-lið 22. gr. l., en þar er gert ráð fyrir 3% söluskatti á alla sölu, aðra en sölu verzlana, og er bifreiðaakstur talinn undir þennan lið. Í brtt. minni legg ég til, að þessi skattur taki ekki til tekna af akstri leigubifreiða. Ég held, að eins og málum er komið nú, sé það fjarri sanni að leggja þennan skatt á bifreiðarstjóra. Það er því meiri fjarstæða sem skatturinn miðast við heildarandvirði vöru, án frádráttar nokkurs kostnaðar. Skatturinn er sem sagt lagður á brúttótekjur af rekstri bifreiðarinnar, en af þessum tekjum verða bifreiðarstjórar að greiða allan kostnað af rekstri bifreiðarinnar. Með gengislækkuninni hefur þessi kostnaður aukizt stórkostlega, þar sem hann er nær allur falinn í erlendum gjaldeyri fyrir vörur, sem fluttar eru til landsins: bifreiðina sjálfa, varahluti, benzín, olíur og gúmmí. Þar sem skatturinn er lagður á brúttótekjur, sem verða að vera hærri en áður, ef bifreiðarstjórar eiga að hafa nauðsynlegan afgang til eigin þarfa, er augljóst, að þessi 3% skattur verður mjög tilfinnanlegur. Þegar svo þar við bætist, að atvinna þeirra fer minnkandi nú orðið, hlýtur afleiðingin að verða sú, að nettótekjur þeirra minnka. Það verður því að teljast sanngjarnt, að söluskattinum verði af þeim létt. — Ef þetta mál hefði verið rætt við hæstv. stj. og hv. flm. í tæka tíð, þykir mér ekki ósennilegt, að ef til vill hefði verið tekið tillit til þess. Það liggur svo í augum uppi, að hér er um sanngirnismál að ræða. Ég hef því borið fram brtt. mína, ,til þess að freista þess, hvort ekki væri hugsanlegt, að þokað yrði til í þessu efni. Hv. frsm. meiri hl. hefur að vísu sagt, að meiri hl. vilji ekki fallast á breyt. á frv., en, ég tel þó rétt að gera þessa tilraun.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en vil vænta þess, að hæstv. stj. og hv. þdm. taki til athugunar, hvort ekki er fært að ganga eitthvað til móts við þarfir þeirra manna, er hér eiga hlut að máli, og held ég, að óhætt sé að fullyrða, að þeir eigi nú við örðugleika að stríða.