31.03.1950
Efri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til að lengja þessar umr. Í raun og veru hefur þetta atriði, sem brtt. eru um, verið rætt. Hv. flm. brtt., 4. þm. Reykv. (HG), dregur í efa, að full þörf sé á þessum peningum. En, eins og hv. þm. Barð. sagði áðan, ef svo tækist til, að hægt yrði að láta þetta niður falla eftir mánuð, þá er gott að taka því. En ef ekki er búið að sannfæra hv. 4. þm. Reykv. við þessar umr. um það, að eins og á stendur sé þörf á þessum peningum fyrir ríkissjóð, þá er yfirleitt ekki hægt að sannfæra hann um neitt í þessu, því að hann vill ekki sjá, hvernig þetta liggur fyrir. Þetta horfir þannig við, að söluskatturinn er nú á fjárlagafrv. og er með gamla genginu áætlaður þar 36 millj. kr. Þeir, sem áætla allra minnsta hækkun tolla vegna gengisbreyt., þeir fara upp undir 40 millj. kr. með þá áætlun. Hins vegar er eftir að bæta á fjárlagafrv. tekjum á móti áhrifunum af gengisbreyt., launauppbótum eða einhverju, sem samþ. yrði þar í staðinn, og á móti hækkunum á lögboðnum útgjöldum, sem verða alls á milli 30 og 40 millj. kr. minnst. Þeir, sem ekki geta sannfærzt af þessu, sannfærast aldrei. Þess vegna er alveg sama, í því tilliti, þó að tíminn líði eitthvað áfram.