31.03.1950
Efri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla, að það sé misskilningur hjá hv. þm. Barð., að það sé um nokkra hugarfarsbreyt. að ræða hjá mér, þó að ég beri fram brtt. Ég tók fram áðan, að ég vildi ekki fylgja frv., þó að brtt. mín væri samþ. En ég vildi, að Alþ. gæfist kostur á að láta bíða ákvörðun þessara gjalda, þangað til séð væri, hvernig fjárl. verða samþ., en að ekki væri farið eftir mjög slæmum upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hefur gefið. En ég vildi mega vænta þess, af ummælum, sem fallið hafa hjá hv. þm. Barð. og hjá hæstv. ráðh., að um hugarfarsbreyt. gæti orðið að ræða hjá ríkisstj. í störfum hennar fram til 1. maí n.k. Og ég þykist ekki mæla þetta ófyrirsynju, því að svo gífurleg hugarfarsbreyt. hefur orðið síðasta hálfa mánuðinn hjá hæstv. ríkisstj. og flokkum hennar. Þegar gengisbreyt. var samþ., þá var því haldið fram, að með henni væri verið að tryggja framtíð sjávarútvegsins, gera ráðstafanir til þess að auka útflutningsframleiðsluna, skapa þar með möguleika til þess að flytja inn meira af vörum og fá þannig auknar tekjur fyrir ríkissjóðinn, og fyrir vaxandi innflutning fengist hagstæðari verzlunarmáti fyrir landsfólkið, við það að vöruskorturinn hyrfi og svarti markaðurinn. Og loks mundu svo höftin hverfa og frjáls verzlun verða upp tekin, og hér mundi verða næstum því Paradísarástand. Nú, hálfum mánuði seinna, eru þessar ráðstafanir, gengisbreyt., kallaðar síðasta tilraun drukknandi þjóðfélags, eða líkt við síðustu tilraun drukknandi manns. Nú er talið, að útflutningsframleiðslan sé að minnka, og það er verið að selja gömlu togarana út úr landinu. sem átti að gera út á saltfiskveiðar, og allt útflutningsmagn er að minnka. Og af því að útflutningsmagnið minnkar um leið, á að hækka tollana og líka til þess að mæta afleiðingum af gengislækkuninni sjálfri. Nú minnist enginn á að afnema höftin. og ekki á að hækka tollana minna en um 40 millj. kr. minnst, miðað við 9 mánuði. Það má segja, að þetta sé þýðingarlaust að endurtaka. En ég tala það í fullri alvöru, að ef nokkuð er meint með því, sem hér hefur verið talað um að athuga fjárl. í heild, þá er þess að vænta, að eitthvað geti það fram komið á þessum mánuði, sem gera má ráð fyrir að líði þangað til fjárl. verða afgr., sem frá þeirra sjónarmiði, sem hlynntir eru þessu frv., sem hér liggur fyrir, gæti talizt ástæða til að valda hugarfarsbreyt.

Þeim till., sem ég styð, að gangi í gegn til hækkunar á útgjöldum fjárl., munum við reyna að benda á tekjur á móti eða sýna fram á, hvað megi fella niður í útgjöldum fjárl. á móti þeim. . Ég hef reynt að hafa þá venju og mun halda henni.