31.03.1950
Efri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

137. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Ég ætla ekki að tefja umr. út af þessum brtt. og helzt ekki taka þátt í þeim, af því að þessi atriði er búið að þaulræða í hv. Nd. og voru í raun og veru hér við 1. umr. talsvert rædd. En ég furða mig á því dálítið, að menn tali eins og gengislækkunin ein út af fyrir sig sé sá töfrasproti. sem allt í einu breytti öllu viðhorfinu, burtséð frá því, hvernig annars árar, og burtséð frá því, hvaða þarfir annars eru fyrir ýmiss konar álögur og útgjöld, og dæmi það skattafrv., sem hér er verið með, út frá því sjónarmiði, úr leik, segjandi sem svo: Nú hafið þið fengið gengislækkun. Getur ykkur ekki nægt hún? — Þeir, sem á undanförnum árum hafa bent á gengisbreytingu, — og í þeim hópi er ég einn — þeir hafa aldrei haldið því fram, að með henni út af fyrir sig væri allt fengið. Það væri jafnvitlaust að halda því fram eins og að segja: Með því að fá mönnum báta í hendur til að veiða með er allt fengið, þó lítil eða engin sé veiðin. — Það ber, því miður, svo við nú, að veiðarnar ganga erfiðlega og markaðsástandið er mjög alvarlegt, svo að ekki sé meira sagt. Og fjárlagafrv. hafa menn haft fyrir augunum í marga mánuði og vita um þarfir og kröfur, sem þar eru gerðar, og mun þó langt frá því, að öll kurl séu þar komin til grafar, ef að vanda lætur, áður en fjárl. eru afgreidd frá þinginu. Og þegar þetta er þannig eins og það er, þá er betur skiljanlegt, að auka þurfi tekjur ríkissjóðs með samþykkt þess frv.. sem hér er um að ræða. Og ég gleðst yfir því, að núv. hæstv. fjmrh. hefur að því leyti til betri aðstöðu til þess að standa að afgreiðslu fjárl. á skynsamlegan hátt, en hefur verið áður nú um nokkra hríð, að tekjur ríkissjóðs hækka af sjálfu sér við það, að þessi gengisbreyt. er lögleidd. Enda var það fyrir hvern þann mann, sem í þeirri stöðu átti að standa, mikil þörf, að betur yrði séð fyrir tekjum ríkisins en verið hefur að undanförnu. — Ég sagði við umr. um þetta mál í gær, að menn hefðu undanfarið verið of bjartsýnir um það, hvað ætlað var, að ríkið kæmist af með litlar tekjur, eða m.ö.o., það voru miklaðar of mikið fyrir sér tekjurnar af ýmsum liðum, sem svo hafa að einhverju leyti brugðizt. Ég minnist þess t.d., að við afgreiðslu síðasta fjárlagafrv. var því mjög haldið fram, að óhætt væri að hækka verðtollsáætlunina og gera ráð fyrir hærri upphæð, sem hann mundi gefa, heldur en gert var. Jafnvel bar á milli minnar áætlunar og sumra annarra um 20 millj. kr., sem haldið var, að óhætt væri að fara hærra í þeirri áætlun. Og þá var flaggað framan í mig, sem þá átti að sjá um þessa hluti, tölum og útreikningum á innflutningi, sem síðar átti sér svo ekki stað, nema að nokkru leyti. Af því leiddi svo það, að nokkrir liðir í tekjuáætluninni reyndust langt fyrir neðan það, sem áætlað var. Og við afgreiðslu fjárlaga er það einna hættulegast, þegar menn leiðast út í það að teygja áætlun um tekjuliðina of hátt. Ein orsökin til þess, að menn geta freistazt til að gera slíkt, er sú, að menn hafa ekki aðstöðu til eða eiga erfitt með að benda á nýjar tekjuöflunarleiðir eða hafa ekki bolmagn til þess að koma fram í fjárlagafrv. ákvæðum um slíkar nýjar leiðir. Nú horfir þetta að vísu dálítið öðruvísi við. Öll líkindi eru til þess, að hægara sé að ná í nægilegar tekjur í ríkissjóðinn, eftir að gengisbreyt. hefur átt sér stað. Og þess er næsta mikil þörf. Því að hv. þdm. vita, að öll þessi ár undanfarið, a.m.k. þrjú síðustu árin, hefur ríkissjóður alltaf orðið að hafa mikla hlaupandi skuld í Landsbankanum, þann svo kallaða yfirdrátt. Og það er hvorki æskilegt né frá fjárhagslegu sjónarmiði hagkvæmt, að slíkt sé svo, en við þetta hefur orðið að búa, vegna þess að tekjur ríkissjóðs hafa ekki reynzt nægar. — Gengislækkunin út af fyrir sig getur þá haft þessar verkanir, sem ég hef lýst. En undirstaðan undir því er þó sú, að visst magn af vörum verði flutt inn í landið, svo að víss tollupphæð komi fram sem grunntala, því að á þá grunntölu verkar gengisbreyt. En grunntalan verður að ná vissri hæð, til þess að þær vonir. sem standa til þess, að ríkissjóður hafi auknar tekjur af gengisbreyt., geti rætzt. Það getur vel verið, ef allt leikur í lyndi um afkomu ársins, sem ég vildi óska, að reyndist svo, að e.t.v. yrði eitthvað ríflega gert í þessu efni með að afla tekna í ríkissjóð. En það var þá vissulega þörf á því, að Alþ., þó ekki væri nema í eitt skipti, sæi fyrir því, að fjárlagafrv. væri afgr. það skynsamlega, að engin hætta væri á því, að óhagkvæm útkoma yrði að lokum á rekstri ríkisbúskaparins yfir árið. — Afleiðingarnar af gengislækkuninni á framleiðsluvörur og þeirra verð eiga eftir að koma í ljós, ekki eftir hálfan mánuð aðeins, heldur eftir marga mánuði, smátt og smátt. Og það gefur auga leið, að sá dráttur, sem verið hefur á því að lagfæra þetta misræmi, eins og hv. þm. Barð. benti á við 1. umr. málsins, það er ekki hvað sízt drátturinn á því að lagfæra misræmi það, sem hefur orðið fyrir of hátt skráð gengi í mörg ár, sem nú veldur örðugleikunum á því, að gengisbreyt. nái tilætluðu gagni. Sá dráttur er búinn að vara allt of lengi. Þess vegna getur enginn með sanngirni ætlazt til þess, að það breytist hér allt í einu vetfangi, bara við gengisbreyt. Slík breyt. hefði þurft að vera komin á fyrir mörgum árum. Og þó að það sé að vísu svo, að ekki tjái um það að sakast, að svo hefur ekki orðið, þá standa þeir menn, sem mest hafa á móti gengisbreyt. staðið, ekki vel að vígi með því að brýna þá, sem gripið hafa til þessa neyðarúrræðis, með því, að gengislækkunin nál ekki þegar í stað öllum hugsanlegum góðum tilgangi, sem henni var ætlað að ná. Ég vil vona, að í framtíðinni komi það í ljós, að gengislækkunin muni þó verða til þess að létta undir með atvinnuvegunum það rækilega, að við verði unað. Það er höfuðtilgangurinn með gengislækkuninni að létta undir með atvinnuvegunum það rækilega, að við verði unað. Annars er það vitanlegt um þetta mál, eins og önnur góð mál, að því aðeins getur það orðið þjóðinni til blessunar, að menn hafi skilning á því, hvaða gagn öðlast af því að aka seglum eftir vindi í þessum atvinnu- og framleiðslumálum, þannig að þær kröfur verði ekki gerðar til framleiðslunnar, sem að nýju keyra hana í kaf. Framleiðslan til sjávarins var komin í fullkomið öngþveiti, þegar gengisbreytingin var gerð. Þeir menn, sem að því stóðu að vinna að henni, vissu, að ekki var til önnur leið fyrir hendi að reyna. Ef ekki hefði verið farið út í að gera þessa gengisbreytingu, var hér ekkert annað fyrir hendi en rúst og atvinnuleysi. Megni gengisbreytingin ekki að reisa við hag framleiðslunnar, þá er það áreiðanlegt, að aðrar ráðstafanir eru ekki sýnilega enn fyrir hendi, sem gætu megnað þetta.