01.03.1950
Efri deild: 66. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

120. mál, ónæmisaðgerðir

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af heilbr.- og félmn. samkvæmt ósk hæstv. félmrh. og hafa einstakir nm. óbundnar hendur um frv. og einstakar greinar þess. Landlæknir hefur samið frv., og fylgir því greinargerð. Hugmyndin er að setja í eitt ákvæði eldri laga um þessi efni, en þau eru flest gömul og þurfa því endurskoðunar, en það eru l. nr. 34 27. sept. 1901, um bólusetningar, og l. nr. 16 22. okt. 1912, um breyt. á þeim l., svo og ákvæði 16. gr. berklavarnalaga, nr. 66 31. des. 1939, er heimila ráðherra að gefa fólki, sem er í sérstakri sýkingarhættu af berklaveiki, kost berklabólusetningar. Landlæknir bendir á, að l. um kúabólusetningu séu svo ströng, að erfitt sé að fullnægja ákvæðum þeirra, og fyrir löngu tímabært að endurskoða þau, ekki sízt er þess sé gætt, að ljósmæðrum hafi fækkað og þær eigi því erfitt með að gegna þessum störfum auk annarra skyldustarfa. Með frv. er leitazt við að færa þetta í einfaldara. form og slakað á l. frá 1901, en jafnframt á að kerfisbinda aðrar ónæmisaðgerðir samkvæmt þeirri reynslu, sem fengizt hefur í þeim efnum. Þær ónæmisaðgerðir, sem l. eiga að taka til, eru bólusetning gegn bólusótt í fyrsta lagi, í öðru lagi gegn barnaveiki, í þriðja lagi gegn taugaveiki, í fjórða lagi gegn kíkhósta, í fimmta lagi gegn berklaveiki og í sjötta lagi gegn öðrum sóttum, er til greina koma hér á landi, ef virk ónæmisaðgerð gegn þeim verður kunn. Að lokum er gert ráð fyrir bólusetningu gegn öðrum sóttum, þegar sérstaklega stendur á, einkum í sambandi við ferðir manna úr landi. — Ég skal geta þess, að heilbr.- og félmn. hefur ekki kynnt sér málið til hlítar, en ég tel sjálfsagt, að málið verði hjá n. til athugunar milli umr., þó að því verði ekki sérstaklega vísað til n. Ég geri svo að till. minni, að málinu verði vísað til 2. umr.