07.12.1949
Efri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég skal ekki fara út í almennar umr. um þetta mál á þessu stigi. Ég vil einungis geta þess, að að svo miklu leyti sem þetta frv. kynni að vera komið fram og flutt vegna þess, að meðferð opinberra mála um verðlagsbrot væri nú ekki eins greiðfær og skyldi, þá er ekki nokkur vafi á því, að frv. það, sem liggur fyrir Nd. um meðferð opinberra mála, mun miklu frekar ná þeim ,tilgangi en þetta frv. Nú kann að vera, að það sé eitthvað annað, sem vakir fyrir hv. fim., og skal ég ekki fara út í það. En sé ætlunin sú að fá betri og öruggari meðferð verðlagsmála, en verið hefur, þá er ekki nokkur vafi á því, að samþykkt frv. um meðferð opinberra mála, sem ekki aðeins tekur til verðlagsmála, heldur allra refsimála, mundi verða miklu þýðingarmeira nýmæli. Ég veit, að í þessu frv. eru ákvæði um fleiri atriði en varða þessa réttarfarslegu meðferð eina, og skal ég ekki taka afstöðu til þeirra á þessu stigi málsins. En ég vildi benda n., sem fær málið til meðferðar, á það, hvort ekki væri miklu eðlilegra að einbeina sér nú á þessu þingi að afgreiðslu þeirrar heildarlausnar í endurskoðun á réttarfarsl., sem liggur fyrir í þessu frv., sem ég nefndi, heldur en að taka eitt atriði út úr, eins og hér er gert, þegar það er þá ekki gert betur eða rækilegar en þetta frv. segir til um. — Ég læt þessa ábendingu nægja nú, en vildi vegna ummæla hv. 1. flm. um, að eina nýjungin í þessu frv. væri í 3. málsgr. 3. gr., vekja athygli á því, að ef ástæða þykir til slíkrar grg., sem 3. málsgr. segir til um, um verð á iðnaðarvörum — og skal ég sízt hafa á móti því, að slík grg. yrði heimtuð —, hvort ekki væri nauðsynlegt að gera slíka grg. og verðsamanburð á öllum íslenzkum framleiðsluvörum og takmarka það ekki við iðnaðinn einan.