07.12.1949
Efri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get auðvitað ekki sagt til um það, hverjar líkur séu á því, að frv. um meðferð opinberra mála verði afgreitt á þessu þingi. Það er á valdi hv. þm., en ekki mínu, að kveða á um það, og væri nær að bera fram fyrirspurn til þm. um þeirra viðhorf í máli þessu heldur en mín, þar sem mínar till. liggja fyrir, en óvíst er, hverjar undirtektir þær fá hjá Alþ. (PZ: Lá ekki frv. fyrir síðasta þingi?) Jú, og því hlýtur það að hafa fengið mikla þinglega athugun og það er nú þegar á þessu þingi í undirbúningi og athugun. Ég veit, að hv. 1. þm. N–M., sem er þaulreyndur og glöggur á meðferð mála, veit, að með slíka stóra og umfangsmikla lagabálka hefur það oft verið venja, að þeir væru til meðferðar á tveimur þingum, en væru ekki afgreiddir á einu þingi, og þess vegna þykir mér líklegt, að hv. þm. hafi áttað sig svo á þessu máli, að þeir eigi hægara með að afgreiða það nú en í fyrra. Það var naumast við því að búast, að menn gætu áttað sig á slíku máli á einu þingi. — En varðandi þá mótbáru, að málið hafi í för með sér gífurlegan kostnað, er því til að svara, að jafnvel eins og frv. er nú, eru það ýkjur, að það hafi gífurlegan kostnað í för með sér. Hitt er játað, að nokkur aukinn kostnaður verður frv. samfara, ef að l. verður. Og mig minnir, að þegar ég lagði frv. fram í fyrra, gæti ég þess — og áreiðanlega nú, þegar frv. var lagt fyrir þingið, að ég tel stórmikinn vinning að því, að frv. verði samþ., þó að þau atriði verði sniðin burtu úr því, sem fyrst og fremst hafa aukinn kostnað í för með sér, en þau atriði mundu aðallega verða í sambandi við embætti fyrirhugaðs saksóknara og lítillega í sambandi við fjölgun sakadómara í Reykjavík, þar sem mundi ekki verða um raunverulegan mikinn kostnað að ræða, þar sem allir þeir menn eru, í störfum nú þegar, sem þar er gert ráð fyrir. En í sambandi við saksóknara ríkisins er eðlilegt, að aukinn kostnaður mundi verða. En eins og ég tók fram, þá tel ég stórmikinn vinning að fá þetta frv. samþ., jafnvel þó að kaflinn um saksóknara ríkisins yrði felldur burtu og ákæruvaldið yrði eftir sem áður í höndum dómsmrn. Meðferð opinberra mála mundi verða svo miklu betri með því að afgreiða frv., þó að þessir kaflar væru sniðnir úr því, að ég tel það ekki áhorfsmál, ef þingið sér í þann tiltölulega litla kostnað, sem er þessum réttarfarsbótum samfara, að þá séu í bili felldir niður þeir kaflar úr frv. Í frv. er um mjög miklar raunverulegar endurbætur að ræða. Hinu tjáir ekki að neita, — og ég veit, að hv. þm. Str., sem er gamall dómari, þekkir það ef til vill betur en ég, — að ákvæði eins og það, sem hér er ráðgert um, að skipa kviðdómstóla undir forsæti fasts embættismanns, er heldur þýðingarlítið ákvæði. Það eru tiltölulega fá dæmi þess, að slíkir aukamenn í dómstóli hafi mikla þýðingu með sínum störfum. Það er rétt, að í einstökum starfsgreinum, sérstaklega varðandi sjóréttarmál, hefur þátt æskilegt að hafa slíka fjölskipaða dómstóla. En það er álit kunnugra manna, að jafnvel í þeim efnum, þar sem þörf er þó mikillar sérþekkingar, sé þetta fjölmenni í dómstólum oft meira til að sýnast, en að það hafi verulega þýðingu. Þar er þó mikil þörf á sérfræðiþekkingu sjófróðra manna, sem kemur alls ekki til greina í málum eins og hér um ræðir.

Úr því að farið er að ræða hér 15. gr., en þar segir: „Málsmeðferð fyrir verðlagsdómi fer að hætti opinberra mála“ —, þá hefur þetta verið þannig eftir þeirri gömlu meðferð málanna, að fyrst fer rannsókn fram. En rannsókn hlýtur nú, eðli málsins samkvæmt, oft að fara fram með þeim hætti, ekki sízt í verðlagsmálum, að erfitt er að láta hana vera fyrir opnum dyrum, ef svo má segja. Það er t.d. vitað mál, að í flestum verðlagsmálum fer aðalrannsóknin ekki fram hjá sakadómara, heldur löggiltum. endurskoðanda, og hann vinnur slíkt starf, að það er ekki hægt að láta almenning sjá annað en niðurstöður. Í 16. gr. segir svo: „Dómþing verðlagsdóms skulu vera opinber, nema dómur ákveði annað.“ Nú er það að vísu svo, að varðandi sjálfa dómsuppkvaðninguna, þá á hún í opinberum málum að vera opin öllum almenningi, almenningur á að hafa þar aðgang, nema dómurinn ákveði annað. Í þessu er ekki fólgin nein nýjung frá því, sem verið hefur. En það nota sér fáir að mæta fyrir dómþingi í opinberum málum, eins og nú er, vegna þess að þar fer engin sókn mála fram og sú eina vörn, sem fram fer, er skrifleg vörn, sem lögð er fram í réttinum. Menn eru jafnnær um gang málanna og eðli, hvort sem þeir hafa verið viðstaddir í réttinum eða ekki. Til þess að það þýði nokkuð að láta þessi dómþing vera opinber, — og ég tel það mikilsvert, að sá háttur sé tekinn upp, — þá verður að hafa bæði munnlega sókn og vörn. Þess vegna er það alveg tómt mál um að tala, alveg eins og ef ég ætlaði að fara að drekka loft. — Það er sagt hér í grg. frv., að þessi mál eigi að vera opinber, svo að allur almenningur geti fylgzt með þeim. Og í 15. gr. frv. er tekið fram, að meðferð þessara mála fyrir verðlagsdómi skuli fara að hætti opinberra mála. Þess vegna, ef mönnum er það áhugamál að fá bætta meðferð á þessum málum og ef menn hafa áhuga á því, að meðferðin verði þannig, að hún verði frekar til þess að fæla menn frá því að fremja þessi afbrot heldur en fram að þessu hefur verið, þá er aðferðin ekki sú að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, því að það hefur engin áhrif í þeim efnum, heldur hitt, að samþ. frv. það, sem nú liggur fyrir hv. Nd. um allsherjar endurbót á meðferð opinberra mála, sem hægt er að framkvæma í verulegum atriðum án þess að verulegur kostnaður fylgi því.

Þess vegna skora ég á hv. allshn., sem ég tel vera systurnefnd þeirrar n., sem fer með frv. um meðferð opinberra mála í Nd., að hafa samvinnu við þá n. og kynna sér, hvað meðferð hins stærra málsins líður, og athuga, hvort ekki er réttara að samþ. það og e.t.v. — ef menn telja ástæðu til þess — þá að samþ. þetta frv. á grundvelli þess, að hitt frv. nái fram að ganga, því að þá fyrst fær þetta verulega þýðingu, sem í þessu frv. er fram sett, ef þær grundvallarendurbætur hafa átt sér stað, sem ég hef gert hér að umræðuefni.