27.03.1950
Efri deild: 81. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Þegar þetta frv. til l. um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm var hér til 1. umr., var það allýtarlega rætt, og getur það að nokkru sparað umr. nú, a.m.k. framsögu. Allshn. hafði málið til meðferðar og hefur, eins og nál. á þskj. 488 ber með sér, að telja má orðið sammála um að leggja til, að frv. verði gert að lögum. Að vísu hafa tveir hv. nm. fyrirvara að undirskrift sinni, en aðrir hv. nm. hafa frjálsar hendur að því er snertir brtt., sem fram kunna að koma eða þeir kunna að sjá ástæðu til að flytja.

N. hefur lagt fram á þskj. 489 allmargar brtt., sem hún telur, að rétt sé að gera við frv., áður en það er gert að l., og vil ég nú í fáum orðum gera grein fyrir þessum till. Ástæðan til þess, að þetta frv. kemur fram, er sú, að rétt þykir að efla eftirlit með verðlagi í landinu. Verðlagsstjóri hefur haft það eftirlit með höndum, en jafnframt hefur hann líka haft með höndum að ákveða verðlag vara. Nú er með þessu frv. aðgreint þetta tvenns konar verksvið verðlagsstjóra og gert ráð fyrir, að kaupendur varanna fái aðstöðu til þess á að velja þann, sem fer með verðlagseftirlitið, og þá þykir ástæða til að velja honum annað heiti. 1. brtt. n. er um það, að hann sé nefndur verðgæzlustjóri, og ég vænti þess, að hv. þm. geti fellt sig við það heiti, og ég tel, að það tákni verksvið hans sæmilega vel. Ég bið hv. þm. að athuga það, að svo illa hefur tekizt til, að í 2. brtt. n. er prentvilla. Brtt. átti að orðast þannig: „2. málsgr. orðist svo.“ Það er aðeins þáttur úr gr., sem hér er gerð till. um breyt. á. Þessi brtt. n. miðast við það, að þeir aðilar, sem fyrir hönd neytendanna gera till. um, hver skuli fara með verðgæzlustjórn, eru fleiri en frv. upphaflega gerir ráð fyrir. Nú eru það 7 aðilar, eftir brtt., sem eiga að vera í n. til að velja verðgæzlustjóra. Það eru stjórnir aðalstéttasamtakanna í landinu, sem velja menn í þessa n., og þótti allshn. réttara, að fleiri kæmu til greina, en þessir 4 aðilar, sem frv. gerði ráð fyrir. — 3. till. n. er um það, að í 3. gr. frv. verði það nánar tiltekið, hvað verðgæzlustjóri á sérstaklega að hafa með höndum, og er þá aðgreint betur, en áður var hans verksvið frá verksviði verðlagsstjóra. Þá er tekið upp í 3. gr. — það þótti efnislega rétt — aðalatriði 9. gr. frv., sem getur þá að meinalausu fallið niður; eins og n. leggur til. — 4. brtt. n. er um breyt. á 4. gr. frv. og er í samræmi við það, að verðgæzlustjóri sé annað, en verðlagsstjóri hefur verið. Enn fremur er tekið út úr gr., að fjárhagsráð eigi að leita umsagnar hans. Hins vegar er frv. svo að efni til, að verðlagsstjóri getur hvenær sem er eigi að síður gefið fjárhagsráði bendingu í þessum efnum. — 5. brtt. n. er við 5. gr., og í henni er gert ráð fyrir, að fjárhagsráð geti falið ákveðnum trúnaðarmanni að framkvæma verðlagsákvarðanir. — 6. brtt. skýrir sig sjálf, og 7. gr. er um, að 9. gr. falli niður.

Þá er komið að kaflanum um verðlagsdóminn. N. varð sammála um það, að rétt mundi vera að gera þennan verðlagsdómstól dálítið umfangsminni en frv. gerir ráð fyrir. Frv. gerði ráð fyrir því, að þessi verðlagsdómstóll skyldi vera settur í hverju héraði um landið allt í sambandi við héraðsdómstólinn og að 2 meðdómendur skyldu vera með hverjum héraðsdómara. Þetta yrði all fyrirhafnar mikið, en aðalágreiningsmálefnin koma fyrir í kaupstöðum landsins, þar sem verzlunin er mest. Og til þess að gera sem minnst úr skriffinnskunni, sem alls staðar þarf að vera á verði gegn, þá er það till. n., að þessi verðlagsdómstóll sé aðeins í kaupstöðum, og er 8. brtt. um það. — 9. brtt. gerir ráð fyrir, að í þessum dómstóli eigi sæti hlutaðeigandi héraðsdómari og einn maður með honum, sem er kjörinn til þess af n. þeirri, sem velur verðgæzlustjóra. Þannig eiga áhrif neytendanna líka að geta náð til verðlagsdóms. — 10. brtt. er aðeins nauðsynlegt ákvæði um það, að dómsmrn. tilkynni stéttasamtökunum, þegar n. þeirra á að fá tækifæri til þess að gera till. um eða tilnefna meðdómendur. Einnig er gerð ráðstöfun til þess, að ef þessi stéttasamtök láta það farast fyrir, þá vanti ekki mann í dóminn, heldur skipar þá dómsmrh. meðdómendur án tilnefningar. — 11. brtt. er um það, að skýrt liggi fyrir, ef dómendur greinir á, að þá skeri úr atkv. formanns dómsins. — 12. brtt. er um það, að meðdómendur fái kaup, en að vísu það lægsta kaup, sem vitað er, að menn, sem kvaddir eru til slíkra starfa, hafi, en það eru menn, sem eru meðdómendur í sjódómi. Ekki þótti tilhlýðilegt, að þeir ynnu alveg kauplaust, þar sem upplýst er, að þessi málefni koma oft fyrir og þeir þurfa mikið að mæta, eins og t.d.. hér í Reykjavík. Þá er b-liður þessarar till. um það, hvernig með skuli fara, þegar máli er áfrýjað, og er það nauðsynlegt ákvæði í þessari löggjöf. — 13. brtt. er svo við 18. gr. og er um það, að tekin eru út úr gr. ákvæði um refsingu, sem þar voru, en vísað í heild til þess kafla hegningarl., sem um slíkt fjallar, og verður það vitanlega eftir mati hverju sinni, en er ekki hægt að taka fram um það í þessum l., svo að tæmandi sé. B-liðurinn er settur inn til að skilgreina betur ákvæði um refsingar. Í frv. var ekki tekið fram, að varðhald geti komið til greina, en það er lægra stig en fangelsi, og á það stig geta sakir verið metnar. — 14. brtt. er um það, að í staðinn fyrir ákvæði til bráðabirgða komi ný grein, sem tiltekur, að ákveðið atriði í l. falli úr gildi, ef frv. þetta verður gert að l. Kæmi þá þessi nýja löggjöf í staðinn fyrir III. kafla l. nr. 70 frá 5. júní 1947, um fjárhagsráð, og er þá líka tekið fram, að umboð verðlagsstjóra og starfsmanna hans falli niður, þegar verðgæzlustjóri hefur verið skipaður og tekur til starfa.

Það getur varla orðið ágreiningur um það, að þörf sé á traustara verðlagseftirliti, en hefur verið fram að þessu, þegar til viðbótar kemur svo það ástand, sem skapast við gengisbreytinguna og þá sérstaklega verðlagningarbreytingin, sem getur freistað þeirra, er með verzlun fara, til að maka sinn krók. Með þessu frv. er gerð tilraun til að skapa sterkt eftirlit, en þó sem öfgalausast.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. Ed. fallist á frv. með þeim breyt., sem við höfum lagt til að við það verði gerðar. Sé ég svo ekki ástæðu til að ha£a framsögu lengri að þessu sinni.