28.03.1950
Efri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Brynjólfur Bjarnason:

Forseti. Mér sýnist sem þessu máli liggi allmikið á. Ég hafði ekki ráðrúm til þess í gær að bera fram brtt. né gera grein fyrir fyrirvara mínum við nál., en minn fyrirvari merkir í stuttu máli, að ég álít þetta nánast hégómamál og hef mjög takmarkaða trú á, að það komi að gagni. Ég held fyrir mitt leyti, að það dugi ekkert minna, en gerbreyting á öllu kerfinu, og á meðan lögin um fjárhagsráð standa óhreyfð, þá hef ég litla trú á aðgerðum sem þessum. Samt sem áður eru viss atriði í þessu frv., sem ég vil ekki standa í vegi fyrir, að gerð verði tilraun með og reynslan látin skera úr um, hvort komið geti að einhverju haldi. Svo er t. d. um ákvæðin í 2. gr., þar sem ákveðið er, að stéttasamtök skuli ráða vali verðlagsstjóra, og þá enn fremur ákvæðin í II. kafla um verðlagsdóm. Hins vegar held ég, að þær brtt., sem fram hafa komið og samþ. voru við 2. umr., séu flestar til hins verra og geri m. a. þessi ákvæði lítils virði. Samkvæmt þeim á þessi embættismaður að vera valdalaus og völdin í höndum fjárhagsráðs. Hins vegar á þarna að stofna nýtt embætti. Þá hefur verðlagsdómi í öðru lagi verið breytt svo, að þar á aðeins að vera einn meðdómandi með héraðsdómara, en ekki tveir, og atkvæði héraðsdómara ræður úrslitum. Meðdómendurnir eru þannig gerðir valdalausir, og ég sé ekki, að stofnunin sé þannig líkleg til að verða mikils virði. Hitt er vitaskuld alveg sjálfsögð tilhögun, að atkvæði meðdómenda geti ráðið úrslitum. Enn fremur þyrftu meðdómendur að vera ráðnir af samtökum á viðkomandi stöðum sjálfum. Ég hef því leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 492, þar sem lagt er til í fyrsta lagi, að verðlagsdómur sé skipaður þremur mönnum, og enn fremur, að þeir séu skipaðir af fulltrúaráðum verkalýðsfélaganna í kaupstöðunum. Aðrar brtt. mínar eru svo gerðar til samræmis við þessa till. Vænti ég þess, að hv. d. geti fallizt á þessa skipun, og teldi ég með því ráðna allmikla bót á frv.