28.03.1950
Efri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Brynjólfur Bjarnason:

Forseti. Það er vitaskuld reynslan ein, sem sker úr um það, hvort hér er um að ræða hégómamál eða ekki, og er ástæðulaust að deila um það. Hv. frsm. meiri hl. taldi, að þetta mundi reynast mikilsvert og vekja áhuga almennings í þessu efni. En ég veit nú ekki, hversu vel er fyrir því séð með þessu frv. Ég hygg, að það komi í því efni fremur að gagni, ef sá háttur væri á hafður, sem ég legg til, að þrír menn séu í dómnum og almenningur fái þannig eitthvert vald í hendur. Hv. frsm. taldi, að þetta eftirlit væri nú gert umfangsminna. Ég efast um, að kerfið með breyt. meiri hl. sé umfangsminna eftir en áður. Það verður útnefndur sérstakur verðlagsstjóri og í öðru lagi fulltrúi hjá fjárhagsráði. Sá aukakostnaður hins vegar, sem því fylgir að hafa 2 meðdómendur, er svo lítill, að ekki tekur að horfa í það, og það virðist einsætt, að þeir verði að fá í hendur eitthvert vald.

Hvað snertir mótbárur hv. frsm. gegn því, að fulltrúaráð verkalýðsfélaganna tilnefni meðdómendur, þá er það alveg rétt, að þetta snertir fleiri aðila en verkalýðsfélögin, en hins vegar ekki svo þægilegt að gera ráð fyrir aðild þeirra í löggjöf. Hins vegar hafa verkalýðsfélögin eingöngu neytendasjónarmiða að gæta í þessu efni og engra annarra og yrðu þannig fullgildir fulltrúar neytenda á hverjum stað.