31.03.1950
Neðri deild: 80. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því að hafa verið fjarverandi og látið bíða eftir mér vegna atkvgr. í Ed. Þetta eru aðeins örfáar athugasemdir. — Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) taldi það mikinn galla á frv., að verðgæzlustjóri hefði ekki nægilegt íhlutunarvald um verðlagningu í landinu. Ég vil benda á það í sambandi við þetta, að í grg. frv., sem hv. þm. las upp úr, var einmitt tekið fram, að rétt sé að veita neytendum mikla íhlutun um verðlagningu, en fullkomna íhlutun um verðlagseftirlit. Svona er tekið til orða í grg., af því að málið er hugsað út frá þeim forsendum, sem ég tók fram áðan. Ég vil benda á það, að verðgæzlustjóri hefur verulega íhlutun um þessi atriði. Hann á að annast þá daglegu starfsemi. Hann á að vekja athygli fjárhagsráðs á því, ef verð er mismunandi, enn fremur að bera saman innlent verð og erlent verð. En það, sem sker úr um þetta atriði, er 9. gr. Þar er tekið fram, að verðgæzlustjóri og þeir, sem með verðlagseftirlit fara, geti krafizt hvers sem er, allra upplýsinga og skýrslna og annarra gagna, sem nauðsynleg þykja. Það má nærri geta með verðgæzlustjórann, sem getur krafizt slíkra upplýsinga, hvort það verður þægilegt fyrir þá, sem eiga að verðleggja vöruna í fjárhagsráði, að ganga fram hjá þeim upplýsingum, sem verðgæzlustjóri hefur í sínum höndum og getur gefið út opinberlega, svo að hann hefur vissulega mikil áhrif.

Viðkomandi því atriði að hafa dómarana tvo, þá tók ég fram þau atriði, sem máli skipta, í ræðu minni áðan. En ég benti á það, að það hefði ekki þótt fært að hafa meðdómendur ólaunaða. Ef ættu að vera tveir meðdómendur, þó að þóknunin sé ekki meiri en sú, sem meðdómendur fá í sjódómi, þá yrði tilkostnaður verulegur, og ég verð að viðurkenna það, að þótt ég hafi flutt þetta frv., þá geta komið fram í n. röksemdir, sem ég get gengið inn á og hlýt að ganga inn á, að séu til bóta frá því, sem ég hef sjálfur lagt til.

Ég tel af þeirri ástæðu, sem ég sagði áðan, að þá sé verðgæzlustjóri sem kærandi í málinu, opinber réttur og birting á dómi fullkomið kontrol á þeim dómara, sem fer með málið, svo að útilokað sé, að hann geti misnotað aðstöðu sína. Ég er ekki að segja, að tveir dómendur, tilnefndir af neytendum, mundu misbeita valdi sínu. En ég verð að ganga inn á þau rök, að vafasamt er, að það sé nægilegt réttaröryggi fyrir þá, sem eiga að þola þá dóma, — og þeir dómar geta verið fangelsi og sektir upp á hundruð þúsunda, — að þeir, sem brotið er gegn, neytendur, ættu einir að skipa dómara til að dæma þá, sem hefðu brotið gegn þeim, Ég verð að viðurkenna, að það er vafasamt, að það væri nægilegt réttaröryggi, þó að ég vilji vona, að það mundi ekki koma fyrir slíka dómara að misbeita valdi sínu. Í þeirri trú og von var frv. þannig flutt. En þegar á það er bent, þá er ekki nóg að vona og treysta. Það verður að vera fullkomið öryggi, þegar þarna á að refsa svo geysilega þungt sem raun ber vitni.

Þá er síðasta atriðið, hvort svarti markaðurinn komi undir þessa gæzlu. Á því er enginn vafi, því að þeir, sem verðlagsstjóri tilnefnir, eiga fyrst og fremst að hafa eftirlit með verzluninni almennt og eins, að ekki sé selt á svörtum markaði. Og þegar neytendur eiga þessa fulltrúa, þá er fyrst og fremst undir almenningi komið, hvort hann notar þá starfskrafta, sem honum eru fengnir til að vinna á móti svarta markaðinum. Ég vil í því sambandi benda á 9. gr. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðgæzlustjóri og þeir, sem með verðlagseftirlit fara samkvæmt lögum þessum, geta krafið hvern sem er allra þeirra upplýsinga, skýrslna og annarra gagna, er þeir telja nauðsyn í starfi sínu....“

Það má sjálfsagt eitthvað að þessu frv. finna eins og öðru og færa það til betri vegar. En ef þessir menn — og það er undir samtökunum komið, sem eiga að tilnefna mennina, sem með þetta vald eiga að fara, sem þeim er fengið í hendur í frv., — eru hæfir menn, þá held ég að verðlagseftirlitið hljóti að verða sæmilega af hendi leyst. Hitt er svo aftur jafnmikil nauðsyn, að réttaröryggið sé tryggt gagnvart neytendum eins og gagnvart þeim, sem dómana eiga að þola.

Svo sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, enda er ég svo hás, að ég held að ég verði að hætta að tala.