21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég býst ekki við, að ástæða sé til að taka nú upp þá gagnrýni, sem ég fyrir mitt leyti flutti við 1. umr. á þetta frv., en ég vonaði þá, að ég mundi koma með brtt. við 2. umr. við frv., a. m. k. við 1. gr. þess, af því að mér þótti það ekki nógu skýrt fram tekið, t. d. í 9. gr., hjá hæstv. landbrh., sem er fyrsti flm. málsins, sem hann ætlaðist til, að væri ákveðið í frv. þessu um verðlagseftirlit. Ég leyfi mér því að leggja fram brtt. um, að aftan við 1. gr. frv. bætist svo hljóðandi: „og koma í veg fyrir svartan markað, gjaldeyrisbrask, óleyfilegan vöruinnflutning og vörusölu í landinu.“ Þannig að það sé skýrt, að þetta allt heyri undir það starf, sem þessum manni er ætlað að inna af hendi.

Ég hefði haft tilhneigingu til þess að koma enn fremur fram með nokkrar brtt. við II. kaflann, um skipun verðlagsdóms. En ég mun láta það bíða til 3. umr. og sjá fyrst, hvernig þeim brtt., sem ég hér flyt, og fleiri brtt., sem hér eru fluttar, muni nú reiða af.

Ég verð að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt. minni, af því að hún er skrifleg.