21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Ég hef áður lýst ýtarlega afstöðu minni til þessa máls. Ég sé því ekki ástæðu til þess að hafa um það mörg orð nú, það yrði endurtekning. Ég vildi þó segja nokkur orð í tilefni af till. og ræðu hv. 8. landsk. (StJSt). Hann taldi, að í grg. frv. væru settar fram efasamar fullyrðingar um, að þetta frv. mundi verða að miklu gagni, og hann las upp setningar úr grg. máli sínu til stuðnings. Ég tel þetta byggt á misskilningi, sem þörf er á að leiðrétta. Ég vil þess vegna, með leyfi hæstv. forseta, lesa orðrétt upp úr grg. til þess að benda á, að hér er einkennilega farið með heimildir:

„En til þess að þetta frv., ef að lögum verður, nái tilgangi sínum, þarf auðvitað fyrst og fremst að veita landsmönnum það verzlunarfrelsi, sem þeir hafa verið rændir....“

Enn fremur stendur síðast í grg.:

Flm. vilja að lokum taka það fram, að takmarkið er ekki fyrst og fremst verðlagseftirlit og þungar refsingar, ef verðlagsbrot eru framin. Takmarkið er svo heilbrigð verzlun, að í henni sjálfri felist nóg trygging fyrir almenning — án þess að ríkið kosti opinbert eftirlit.“

Hv. þm. hefur því alveg snúið við efni grg. Ég held líka, að í þeim ræðum, sem ég hef flutt um málið, hafi ég tvítekið, að vitanlega væru refsingar fyrir verðlagsbrot varnarlína nr. 2. Takmarkið er frjáls verzlun, eins og margtekið er fram í grg. Ef þessi hv. þm. vill styðja hagsmuni almennings í þessum efnum, þá vil ég minna hann á frv. um verzlunarmálin, sem liggur fyrir. Það er varnarlína nr. 1. Þetta liggur ljóst fyrir, og ætti að vera óþarfi að ræða það, þar sem hver þm. hefur lesið það í grg.

Ég skal svo með örfáum orðum minnast á það, sem hv. þm. sagði um svartamarkaðsbrask og keðjuverzlun. Ég vil ekki draga úr þeim lýsingum, sem hv. þm. gaf á því, hvernig þessu er komið. Það stafar fyrst og fremst af ástandinu í verzlunarmálunum og því, hvernig verðlagseftirlitið hefur verið. Það á að vera eitt af hlutverkum verðgæzlustjóra að koma í veg fyrir þá keðjuverzlun og svartamarkaðsálagningu, sem hv. þm. fór mörgum orðum um og fordæmdi réttilega, að mínu áliti. En ég tel brtt. hv. þm. við 6. gr. ekki heppilega. Eins og hæstv. viðskmrh. benti á, hefur verðgæzlustjóri verðgæzluna með höndum, en ekki verðlagninguna, og þess vegna er till. hv. þm. í ósamræmi við efni frv. Þar sem verðgæzlustjóri er kosinn af neytendum, er ekki heldur eðlilegt, að hann ákveði vöruverðið. En eins og ég hef tekið fram, er hann hins vegar ekki háður ríkisstj. eða fjárhagsráði og getur því verið hlutlaus. Ég hef enn fremur bent á það, að ekki væri eðlilegt, að neytendur ættu tvo fulltrúa í verðlagsdómi, því að þá væru tveir skipaðir af öðrum aðilanum. Sá háttur er ekki hafður í sjúkdómi, að annar aðilinn tilnefni meiri hluta dómsins. Á þetta benti ég við 1. umr. og þarf ekki að endurtaka það. — Ég tel eðlilegast, að gengið verði frá frv. eins og það nú liggur fyrir. Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um málið.