21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. í tilefni ræðu hv. 2. þm. Reykv. langar mig til að segja nokkur orð. Ákvæði gildandi l. um verðlagsstjóra eru í 16. gr. l. nr. 70 5. júní 1947, um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, og gr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin skipar, að fengnum tillögum fjárhagsráðs, verðlagsstjóra, sem gerir tillögur til innflutnings- og gjaldeyrisdeildar um verðlagsákvæði og hefur á hendi framkvæmd þeirra og eftirlit með, að þeim sé hlýtt. Hann skipar trúnaðarmenn um land allt til verðlagseftirlits. Hann hefur á hendi allan daglegan rekstur í sambandi við verðlagseftirlitið. Ef upp rís ágreiningur um skilning á verðlagsákvæðum, sker innflutnings- og gjaldeyrisdeild úr.

Þeir, sem með verðlagseftirlit fara samkvæmt lögum þessum, geta krafið hvern sem er allra þeirra upplýsinga, skýrslna og annarra gagna, er þeir telja nauðsynleg í starfi sínu.“

Hliðstæð ákvæði eru í 3. gr. þessa frv. Ég hef litið svo á, að þrátt fyrir breytt orðalag þá hafi það eigi verið tilætlun hæstv. ríkisstj. að gera efnisbreytingar, því þótt það sé eigi tekið fram í 3. gr., liggur það í augum uppi, að verðlagsstjóri geti gert tillögur um verðlag. Meginhlutverk hans og skylda hlýtur að vera að gera tillögur um verðlagsákvæði. Ég starfaði nokkuð á þessu sviði fyrir nokkrum árum og er nokkuð kunnugur starfsháttum þar. Ég hef leyft mér að treysta því, að engar breytingar eigi að verða á starfsháttum, þótt frv. verði samþ., og verðlagsstjóri líti á það sem skyldu sína að fylgjast með verðlagi í landinu og gera tillögur um breytingar á því o. fl. Ef í ljós kæmi, að það væri tilætlun hæstv. ríkisstj. að draga úr valdi verðlagsstjóra, þá er ég sammála hv. 2. þm. Reykv., að það væri spor til hins verra, já, mjög til hins verra. — Það er leiðinlegt, að enginn hæstv. ráðh. skuli vera viðstaddur umr., því að ég vildi gjarnan að það kæmi skýrt fram, hver væri tilgangur hæstv. ríkisstj. með hinum breyttu ákvæðum um hlutverk verðgæzlustjóra. Ef hæstv. ríkisstj. telur, að breytt orðalag muni hafa í för með sér einhverja breytingu á störfum hans, þannig að dregið verði úr tillögurétti hans, þá tel ég þá breytingu munu verða til hins verra.