21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, af því að þeir hæstv. ráðh., sem aðallega hafa svarað fyrir þetta frv., eru ekki viðstaddir, en það er eingöngu út af þeim atriðum, sem síðast hafa verið rædd af tveim síðustu ræðumönnum, og virðast mér bollaleggingar þeirra raunar vera óþarfar, því að það liggur greinilega fyrir fyrst og fremst, að verðlagningarvaldið skuli vera í höndum fjárhagsráðs, og þarf því ekki að ræða það sérstaklega. Hitt er, að því er mér virðist, alveg ljóst, að eitt af meginhlutverkum verðgæzlustjóra er að safna skýrslum um verðlag í landinu, og auðvitað er það þá skylda hans að leggja þær skýrslur og tillögur sínar fyrir fjárhagsráð, og það er ljóst, þar sem hann er kosinn af félagssamtökum neytenda í landinu, að þá er hann að bregðast umboði sínu, ef hann gerir þetta ekki. Honum ber að leggja gögn og skýrslur og gera tillögur til fjárhagsráðs. Virðist því, að þessi atriði séu á þann veg, að ekki orki tvímælis um, hvernig framkvæma eigi.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að ræða málið frekar nú. Það hefur þegar verið ýtarlega rætt við 1. og 2. umr. og enn er 3. umr. eftir og er því hægt að leggja fram aths. við það, ef þurfa þykir, áður en það verður afgreitt frá d. Ég býst ekki við því, að atkvgr. fari fram núna, þó að ósk ríkisstj. sé, að það verði afgreitt eins fljótt og kostur er á, en bæði er það, að skrifl. brtt., fleiri en ein, hafa borizt, og þyrftu hv. þm. að kynna sér þær áður, og auk þess er d. þannig skipuð, að hæpið er, að hún geti talizt ályktunarhæf.