21.04.1950
Neðri deild: 86. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér þótti vænt um yfirlýsingu hæstv. forsrh. varðandi skilning hans á því atriði frv., sem snertir verksvið verðgæzlustjóra, og vænti ég þess, að það sé einnig skilningur hæstv. ríkisstjórnar.

Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki heyrt orð mín áðan, og þess vegna skal ég endurtaka þau í stuttu máli, en þau hnigu að því, að vegna þess að ég held, að óhætt sé að skilja frv. þannig, að þar sé ekki um breyt. að ræða á verksviði þessa embættismanns, þá álít ég, að það sé óheppilegt að vera að breyta embættisheiti hans einungis vegna þess, að embættið verður skipað með öðrum hætti, en verið hefur, því að það gæti valdið misskilningi. Vil ég því leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. geti fallizt á brtt. mína um, að heiti hans verði óbreytt frá því, sem nú er.