25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég sé, að hv. frsm. er ekki mættur hér, og vil ég þá aðeins fara nokkrum orðum um málið, sakir þeirra brtt., sem fyrir liggja og ekki hefur verið tekin ákvörðun um. N. hélt fund í morgun og ræddi þessar brtt., og meiri hl. hennar þótti brtt. ekki það mikilvægar, að ástæða væri til að hrekja málið milli deilda fyrir þær. Ég mun aðeins víkja lítils háttar að hverri einstakri brtt.

Brtt. á þskj. 572 er um það að breyta til um heiti embættismanns, að fyrir orðið „verðgæzlustjóri“ komi: verðlagsstjóri. Það má vel vera, að vel fari á því, en þetta er svo smávægilegt atriði, að ekki virðist ástæða til að fara að hrekja málið á milli d. vegna þessarar breyt. — Þá er brtt. á þskj. 571, sem er frá hv. 2. þm. Reykv. Hún er við 1. gr., að við hana bætist, að verðgæzlustjóri skuli enn fremur skipaður til að koma í veg fyrir svartan markað, gjaldeyrisbrask, óleyfilegan vöruinnflutning og vörusölu í landinu. N. álítur, að það heyri beint undir þennan mann og sé í hans verkahring að hafa eftirlit með þessu öllu og miklu fleiru slíku og þess vegna þurfi ekki að telja það upp, hvað honum beri að gera. Hann á að vera á verði um þetta og margt fleira til að halda uppi heilbrigðum háttum í þessum málum, enda gæti líka vel komið fyrir, að manni sæist yfir, ef tína ætti upp allt, sem hans verksviði tilheyrir. — Önnur brtt. hv. 2. þm. Reykv., sem er á þskj. 573, lýtur einnig að starfi þessa embættismanns og er um það, að honum sé skylt að gera ýtarlegar og rökstuddar tillögur til fjárhagsráðs um verðlag í landinu o. s. frv. Þetta heyrir einnig honum til og fjárhagsráði, sem á að vera á verði með honum um allt slíkt, og er þess vegna ekki nauðsyn á að tiltaka þetta neitt sérstaklega, þó að segja mætti, að engu væri spillt, þótt þetta væri samþ. Hvað efni og meðferð málsins snertir og framkvæmd þess, þá ætti ekki að vera þörf á að taka slíkt fram.

Þá eru hér brtt. á þskj. 551 frá hv. 8. landsk. þm. (StJSt). Um 1. brtt. er það að segja, að það atriði, sem hún fjallar um, felst í 4. gr. frv., eins og það er nú. Í henni er drepið á ýmislegt fleira, og má um það segja, að þessum starfsmanni beri að vera á verði um það, að ekki sé tekið meira en nauðsyn ber til af fólkinu. Ef ætti sérstaklega að taka slíkt fram um eitthvað, þá væru mörg fleiri atriði en saumaskapur, sem kæmu til greina. Ég ætla, að ekki sé nein sérstök nauðsyn til að taka þetta fram, þar sem líka það er beint tekið fram í 4. gr. frv. sjálfs, að það skuli gert, sem þessi brtt. fjallar um. — Um 2. brtt. er það að segja, að meiri hl. n. gat ekki fallizt á efni hennar og lítur þar öðruvísi á en hv. flm., en brtt. er um breyt. á efni frv. Sama er að segja um 3. brtt. á þessu þskj.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta efni. Þess er að vænta, að frv. fari að fá afgreiðslu. Eftir því sem mér hefur skilizt, er það víst þægilegra, að þessi l. komi nú fljótlega til framkvæmda.