25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Jörundur Brynjólfsson:

Þetta skal vera ósköp stutt. — Ég verð að segja það, að ég er undrandi á ræðum hv. þm. Hv. þm. Ísaf. staðhæfir enn, að verðgæzlustjórinn eigi ekki að hafa eftirlit á öllu landinu, þótt það sé falið í 1. gr. frv., jafnframt valdi því, sem honum er lagt í hendur: Hvað vill hv. þm.? Vill hann, að hver verzlunarhola verði talin upp? (EOl: Það væri vissara.) Ég bjóst við því. Yrði þá að setja undir þann leka. (EOl: Keflavikurflugvöllur líka.) Já, vafalaust, og þyrfti þá að gera hv. 2. þm. Reykv. að verðlagseftirlitsmanni þar. Þetta er fjarri öllu lagi og sýnir, hversu menn vilja seilast langt. Þarf ekki að svara því fleiru til.

Hv. 2. þm. Reykv. staðhæfir enn, að verðgæzlustjóri hafi eigi vald til að heimta skýrslur og gögn, sem eru grundvöllur verðlagseftirlitsins. Hvernig á hann þá að hafa það eftirlit? Ef fjárhagsráð ákveður verð, þá byggir það verðið á margvíslegum frumatriðum, og þyki þau fullnægjandi, þá er verðið ákveðið. Síðan hefur verðgæzlustjóri eftirlit. Hvernig getur hann verið viss um, að kaupmenn og kaupfélög fari eftir verðlagsákvæðunum, ef hann neitar að kynna sér grundvöll verðlagningarinnar hjá hverjum og einum? Það er svo margvíslegt, sem snertir þetta mál, að annað er óhugsandi, enda er verðgæzlustjóra ætlað þetta vald skv. ákvæðum þeirrar gr., sem vitnað var til. Honum er gefið það vald í 9. gr., að hann getur gengið svo nærri mönnum, að hann má eigi segja frá því, sem hann kemst að í starfi sínu varðandi viðskiptamál, má hér heimta allar upplýsingar, skýrslur og gögn. Þetta sýnir, hve langt er gengið. — Hv. þm. á ekki að vera með þessi látalæti. Hann meinar ekki það, sem hann segir, og fer ekki vel á því.