25.04.1950
Neðri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

44. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Finnur Jónasson:

Ég hefði eiginlega getað með samanburði á l. og frv. á ýmsan annan hátt getað sýnt, að frv. er gert veikara en áður var í l. Er það rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að öflun gagna er sterkari í fjárhagsráðsl. en hér í frv. Annars hef ég ekki tíma til að fara nánar í það. En ég vil leyfa mér að leiðrétta það, sem hv. frsm. hefur sagt, en hefur eigi séð ástæðu til að leiðrétta. Hann sagði, að ég hefði sagt, að verðgæzlustjóri ætti ekki að hafa verðlagseftirlit í öllu landinu. Ég benti á, að annað sé í gildandi l. en frv., og sýndi fram á, að í því sé létt af verðgæzlustjóra skyldunni að hafa trúnaðarmenn um land allt. Þessi skylda var áður í l., og hér er verið að afnema hana. — Ég sé nú, að hæstv. forseti er farinn að gerast óþolinmóður. — Ég er heldur leiður yfir því, að hinn ágæti vinur minn og kunningi skuli hafa tekizt á hendur að verja það, að verið er að veikja verðlagseftirlitið í stað þess að styrkja það, sem því var þörf á, því að það er verið að veikja verðlagseftirlitið með því að bæta störfum á stofnunina, sem er ofhlaðin störfum fyrir, og án þess að leita umsagnar hennar um þetta.