24.04.1950
Neðri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

112. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. og leggur eindregið til, að það verði samþ. Hún sendi það hæstarétti og stjórn Lögmannafélags Íslands til umsagnar. Stjórn lögfræðingafélagsins mælir með frv., og hæstiréttur mælir með frv. efnislega, en telur þó, að heppilegra hefði verið að mörgu leyti að láta það bíða, þar til löggjöfin hefði verið endurskoðuð í heild. Efni frv. gengur út á að flýta fyrir meðferð einkamála í héraði. Er lagt til, að héraðsdómari leiti sjálfur sátta í einkamálum, því að eins og segir í grg., eru oft óþarfa tafir og kostnaður að því, að málið fari fyrst til sáttanefndar, þar sem flest mál verða ekki útkljáð þar, heldur er vísað áfram til meðferðar héraðsdómara. Ég vil baka fram, að valdssvið sáttanefndar er ekki að neinu leyti skert með þessu frv.