17.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

147. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af hv. þm. V-Ísf. og er um það, að Hjarðardalsbót í Önundarfirði verði tekin upp í hafnarlög. Það er þörf á, að þarna verði byggð lítil bryggja, sem fært sé vélbátum að leggjast að, einkum sökum mjólkurflutninga úr þessu héraði, sem þarna liggur að, til Ísafjarðarkaupstaðar að vetrinum, en þá verður þar mjólkurþurrð að jafnaði. Það mætti kannske segja, að hægt væri að afskipa þessari mjólk við bryggju á Flateyri. En það kostar bændur við innanverðan og vestanverðan Önundarfjörð að fara inn fyrir fjörðinn með hana og svo út með firðinum til Flateyrar, sem mundi kosta mikið. Ef hægt væri hins vegar að skipa mjólkinni út við Hjarðardalsbót, mundi framleiðslukostnaður bænda í Önundarfirði minnka mikið við það mikla hagræði. Telur sjútvn., að ekki verði meiri kostnaður við bryggjugerð þarna en svo, að sjálfsagt sé að samþ. þetta frv. og greiða þannig fyrir afurðasölu bænda þarna í Önundarfirði. — Hv. flm. frv. hefur upplýst, að í Hjarðardal í Önundarfirði er löggiltur verzlunarstaður síðan 1936.