11.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

147. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil bara benda á, að ég er í mjög miklum vafa um það, hvort það er rétt stefna, sem Alþ. hefur fylgt og kemur fram í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að vera að búa til lendingarbætur hverja ofan í aðra, kosta til þess að gera hafnargerðir og lendingarbætur hverja, svo að segja, við aðra. Sums staðar eru ekki nema 7–10 km. á milli bryggjugerða. Og þessi bryggjugerð, sem hér er um að ræða í þessu frv., er bara hinum megin við mjög mjóan fjörð, þar sem Flateyri er annars vegar. — Ég tel ákaflega vafasamt, að þetta sé rétt stefna. Ég veit ekki, hvað mundi kosta bryggjugerð þarna. En ég hef lent í Hjarðardalsbót og orðið að vaða í land, af því að þar var svo grunnt, að ekki var hægt að lenda báti, hvernig svo sem aðstaðan er þar til lendingarbóta. (HV: Það er af því, að þar hefur vantað bryggju.) En hvað á bryggjan að ná langt fram á þessum stað, og hvernig er aðstaðan þarna til bryggjugerðar? Það hefur ekki verið rannsakað. Ég tel það því varhugaverða stefnu, sem kemur fram í þessu frv., og að það sé mikil spurning, hvort lendingarbætur eigi að gera eins víða og gert hefur verið ráð fyrir, eða hvort ekki á heldur að gera þær færri en fullkomnari. Ég tel það mjög til athugunar.