14.04.1950
Efri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

106. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir það ekki að ófyrirsynju, að þetta frv. er komið hér fram, og tel það ekki óeðlilegt. Ég bar fram frv. á þremur síðastliðnum þingum til breytinga á þessum lögum, þess efnis, að atvinnurekendur, hvort heldur sem þeir væru einstaklingar eða félög, skyldu aðeins greiða útsvar þar, sem þeir eiga lögheimili. Þá átti flm. þessa frv. sæti í allshn., sem þá vísaði því frv. frá sér á sama hátt og hv. minni hl. leggur til, að gert verði við þetta frv., á þeim grundvelli, að hættulegt gæti verið að samþykkja einstök atriði um breyt. á löggjöfinni án þess að endurskoða og breyta henni allri. Á þessum grundvelli var þessi hv. þm. með því að vísa málinu frá. Þannig fór það í tvö skipti, en í þriðja skiptið náði það fram að ganga, en þó þannig breytt, að ríkisskattanefnd taldi það vafasamt, hvort hún ætti að hlíta ákvæðum þess. Ég vil aðeins nefna það sem dæmi, að einn atvinnurekandi, sem átti heimili úti á landi og hafði stórkostlegan atvinnurekstur, hann átti skip, sem stundum hefur gengið og stundum ekki. Undanfarið hefur það legið hér í Reykjavík, án þess að hafa þó nokkurn tíma farið héðan til veiða, en ríkisskattanefnd hefur þó úrskurðað útsvar á þetta skip frá Rvík, þó að það sé þvert ofan í fyrirmæli l. og þetta fyrirtæki hafi aldrei rekið atvinnu hér í Rvík.

Mér er það líka ljóst, að nauðsynlegt er að breyta útsvarsl. meira, en hér er gert ráð fyrir. Það verður að setja um það skýr ákvæði, hvaða rétt skattþegninn á, og það verður enn fremur að setja um það skýr ákvæði, hvaða rétt skattanefndirnar eiga. Ég hef alltaf skilið lögin þannig, að skattan. ætti að vera réttlátur dómari, en ekki að taka taum eins aðila, einkum þegar þess er gætt, að ekki er hægt að áfrýja dómum hennar um upphæðir. En veit nokkur dæmi um það, að skattaðili fái að verja sig gegn þessari nefnd? Það eru kveðnir upp dómar af henni, en það fylgja engar greinargerðir þeim dómum. Er það í raun og veru hægt fyrir skattþegn að beygja sig undir slíkt? Nei, ég er því sammála hv. minni hl. um, að nauðsynlegt sé að breyta l., en ég er ósammála honum um það, að ekki sé hægt að breyta einstökum atriðum, án þess að heildarskoðun skattalöggjafarinnar sé tekin um leið, en það eru sömu rökin og beitt var, þegar ég var að flytja mínar brtt. við lögin. Þá var málinu vísað frá á sömu forsendu, að það væri ekki rétt að breyta einstökum atriðum, heldur ætti að bíða eftir heildarendurskoðun á löggjöfinni, sem er mjög óréttlát og þarfnast breytinga. En það er ekki rétt, því að með því að vísa málinu frá er auðvitað ekki verið að flýta fyrir endurbótum á lögunum. Það er því misskilningur að vísa frv. frá á þeim grundvelli. Hins vegar væri og er rétt að hafna því, ef það er efnislega séð ekki til bóta. En ef það á að bíða eftir því að gera réttlátar breytingar á l., að endurskoðun þeirra sé lokið og frv. með hliðsjón af henni lögð fram, þá er ég hræddur um, að við mættum bíða lengi. En það, sem ræður því, að þessir menn vilja halda í lögin, er það, að þeir kæra sig ekki um réttlæti í ákvæðum þeirra, þeir eru ekki fúsir til þess að koma með frv., það verður að draga það út með töngum.

Ég mun fylgja frv. óbreyttu, eins og það liggur fyrir á þskj. 285, en mun hins vegar greiða atkvæði á móti brtt. meiri hl. allshn., og tel ég það vera stórkostlegt réttlætismál eins og það er í upphafi, en ef einhverjir aðilar eru óánægðir, þá er rétt að leyfa þeim að sækja á. Ástæðan til þess, að ég get ekki fellt mig við brtt. meiri hl., er sú, að ég tel rétt, að þar, sem menn eigi heimilisfesti, þar eigi menn að greiða útsvör og hvergi annars staðar. Það er búið að leggja svo miklar kvaðir á heimilissveitina, að það er ranglátt að taka þær tekjur, sem hún getur haft af sínum heimilisföstu þegnum. Ég er líka á móti því, af því að ég skil ekki, hvernig hægt er að framkvæma það, sem hv. flm. ætlast til, ef brtt, verður samþ. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú stundar gjaldþegn fasta atvinnu, utan heimilissveitar og meiri hluti atvinnutekna hans stafar frá þeirri atvinnu, en útsvör verða talin hlutfallslega lægri í heimilissveit hans en atvinnusveit, og getur þá atvinnusveit krafizt þess, þátt útsvari gjaldþegns sé ekki skipt, að hann greiði henni útsvar, sem nemur þeirri upphæð, er honum hefði borið að greiða í atvinnusveit umfram það, er hann greiðir í heimilissveit.“

Hver er kominn til að segja, hvað hann á að greiða í heimilissveit? Þetta er rökvilla hjá meiri hl.

Þá stendur enn fremur: „Heimilissveit er skylt að innheimta útsvarsauka þennan, samkv. úrskurði yfirskattanefndar, og standa atvinnusveit skil á honum.“ Má þá skjóta þessu til ríkisskattanefndar? Eða eiga hv. flm. við, að það sé ríkisskattanefnd, sem þeir kalla yfirskattanefnd? Ef svo er, þá er eðlilegt að taka það fram eins og það er. Eftir hverju á að leggja þetta útsvar á? Það er enginn löggiltur mælikvarði, hvað á að greiða í útsvör. Hann er aðeins hafður til hliðsjónar, hvað eigi að taka af mönnum minnst, en það er takmarkalaust, hvað leyfilegt sé að taka mest. Nú hafa mörg sveitarfélög farið inn á þá lögleysu að leggja veltuútsvar á hreinan taprekstur, eða hvar eru l. fyrir því, að megi fara svo að? Bæjar- og sveitarfélög leggja á eftir því, sem þeim sýnist, án þess að farið sé eftir nokkrum föstum reglum. Þess vegna er ómögulegt að hafa þessa gr. nema um leið sé löggilt, að ekki megi fara út fyrir ákveðinn ramma, sem birtur er opinberlega, svo að menn viti þó, að það megi ekki taka meiri útsvör en svo og svo. Mér finnst því ótækt að hafa þessa gr. eins og hún er sett hér fram sem breyt. við frv. og mun greiða atkv. á móti því.

Ég sé, að minni hl. vill láta vísa málinu frá, vegna þess að það þurfi að athuga l. í heild. Ég hef gert grein fyrir því, hvers vegna ég sjái ekki ástæðu til að fallast á þá skoðun. Hv. frsm. telur, að útsvars- og skattalögin séu svo margbrotin, að erfitt sé að gera sér grein fyrir, hvernig einstakar breyt. kæmu til með að verka. Sé það rétt, er óforsvaranlegt, jafnvel af minni hl., að leggja ekki vinnu í að breyta þeim ákvæðum þessarar löggjafar, sem er blettur fyrir þjóðina að hafa, og breyta þeim þannig, áð það falli inn í þá nýju löggjöf, sérstaklega þegar um tvo lögfræðinga er að ræða í þessum minni hluta.

Nei, ég held, að það mætti segja um fleiri löggjöf en þessa, að breyt. kynnu að raska löggjöfinni í heild. En við verðum að taka á okkur þá áhættu, og ég er ekki þeirrar skoðunar, að þessi breyt. raski löggjöfinni, nema síður sé, þó að frv. sé samþ. óbreytt, því að það væri réttlæting á því ranglæti, sem hefur staðið allt of lengi.

Hv. frsm. benti á, að þetta væri óhagræði fyrir ákveðin sveitarfélög, m. a. Seyðisfjörð. Ég er ekki á sama máli. Það kann vel að vera, að Seyðisfjörður hafi haft einhverjar tekjur af þessu út af fyrir sig. Hann upplýsti líka, að Seyðisfjörður hefði orðið að sækja til annarra hreppa menn með sérþekkingu. Er það þá réttlátt, ef einhver hreppur er svo illa mönnum búinn, að hann þarf að sækja betri menn til annarra hreppa, að taka líka af þeim hluta af tekjum þeirra? Það er ákaflega skrýtin lögspeki. Mér finnst ekki þurfi að borga Seyðfirðingum fyrir að fá þessa ágætu menn til að kenna þeim að vinna fyrir þá, fyrst þeir höfðu ekki sjálfir manndóm til að hafa menn, sem kunnu til þessara verka. Sama er að segja með Siglufjörð. Það eru því engin rök gegn frv., nema síður sé.

Ég mun því fylgja frv. óbreyttu og greiða atkv. móti brtt., eins og þær liggja fyrir, og tel, að þær séu ekki til bóta, nema síður sé.

Mér finnst einkennileg umsögn, sem hefur komið fram m. a. frá Reykjavíkurbæ, og sýnir hún, hvaða hugsun liggur þar á bak við, þar sem sagt er, að bæjarráðið mundi fyrir sitt leyti telja frv. aðgengilegra, ef jafnframt yrði sett löggjöf um sameiningu Seltjarnarneshrepps við Reykjavík. Ég hef ekki heyrt aðra eins firru. Það er merkilegt, að svona umsögn skuli koma frá leiðandi hreppsfélagi og bæjarfélagi, að bjóða hreppsfélögum upp á að taka frelsið af þeim, hvort þeir vilji vera sér eða sameinast öðrum. Þeir menn hafa ekki þung rök fyrir sínu máli, sem nota þetta sem aðalrök.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða málið nánar á þessu stigi, en mun fylgja frv. óbreyttu og tel, að þannig eigi það að verða samþykkt.