14.04.1950
Efri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

106. mál, útsvör

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun greiða atkv. með þessu frv. með þeirri breyt., sem meiri hl. leggur til á þskj. 508, við 2. gr. Ég fæ ekki betur séð, en heildarendurskoðun útsvars- og skattalaga sé jafnauðveld og eðlileg eins fyrir því, þó að þessi breyt. sé gerð á útsvarsl. En ég er sammála minni hl., að það er nauðsyn að endurskoða þessa löggjöf, en ég tel ekki, að þetta frv. torveldi slíkar aðgerðir á nokkurn hátt. Hins vegar þykir mér rétt að taka fram, sérstaklega í sambandi við orð, sem féllu hjá hv. þm. Barð., að ég álít, að það miði að ýmsu leyti í öfuga átt í sveitarstjórnarmálum hjá okkur. Ég álít, að hin tíðu hreppaskipti séu óeðlileg og óheppileg. Mér er engin launung á því, að ég álít eðlilegt, að bæði Seltjarnarneshreppur og Kópavogshreppur séu sameinaðir Reykjavík. Ég álít, að ekki einungis með tilliti til Reykjavíkur, heldur einnig þessara hreppa, sé sú lausn heppilegust. Ég verð að telja það óeðlilegt til frambúðar, að heil hreppsfélög séu þannig sett, að allir íbúar þar eða mikill hluti þeirra eigi atvinnu sína undir rekstri fyrirtækja í öðru sveitarfélagi. Og það verður því hæpnara fyrir þessa hreppa sem meiri og skarpari aðgreining er gerð milli sveitarfélaga, en óneitanlega miðar þetta frv. nokkuð í þá átt. Mér er spurn: Hvar væru íbúar þessara hreppa staddir, ef ráðstafanir væru gerðar til þess að tryggja Reykvíkingum einum atvinnu við þá starfsemi, sem rekin er hér í bænum? Það er augljóst, að afkomuskilyrði þessara hreppa eru ekki bundin við fyrirtæki þeirra út af fyrir sig nema að tiltölulega litlu leyti. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, m. a. vegna ummæla hv. þm. Barð. En eins og ég sagði í upphafi, tel ég, eins og þessum málum er nú háttað, eðlilegt að samþ. þá breyt., sem hér er um að ræða, og mun greiða henni atkv. Ég tel fullkomlega til athugunar, hvort er ekki algerlega skökk sú stefna, sem uppi er nú, að skipta hreppum, strax og þorp kemur, eins og nú hefur mjög verið tíðkað.