14.04.1950
Efri deild: 88. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

106. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég skal að engu svara hv. þm. Barð. (GJ) skætingi hans til ríkisskattanefndar. Ég hef aðeins verið þar nokkur ár með tengdasyni hans og man ekki, að nokkur ágreiningur hafi verið milli okkar, nema þá eitthvað mjög lítilfjörlegt, þannig að ég held, að hv. þm. ætti ekki að vera að seilast svona langt, vinna það til að geta skammað mig að skamma hann líka.

Mér þótti annars ákaflega skemmtilegt að heyra hv. þm. Barð. segja þessa setningu: „Allir menn, sem hafa fengið lögfest rangindi, vilja halda þeim.“ Þetta er nefnilega mottó sjálfstæðismanna. Það kom frá hjartanu, þegar hv. þm. sagði þetta, frá innsta grunni hjartans. Þetta er nefnilega það mottó, sem sjálfstæðismenn hafa lifað eftir undanfarin ár.

Oddvita Kópavogshrepps, hv. 7. landsk. (FRV), vil ég segja þetta: Það er grundvallaratriði fyrir allri skiptingu útsvara, að kröfur séu komnar um skiptingu, áður en útsvarsniðurjöfnun fer fram. Eftir því, sem hann hefur upplýst, hefur þessu skilyrði ekki verið fullnægt að því er snertir hans hrepp, Kópavogshrepp, og vil ég þess vegna mjög ráða honum til þess að losna við alla skiptingu, því að hann þarf þá ekki að svara einni einustu skiptingu á útsvari. Hann getur þess vegna kalt og rólega jafnað útsvörunum niður núna, og ef engar skiptakröfur eru komnar fram, þarf hann engum skiptakröfum að svara, engri einustu. En mér getur ekki fundizt annað en það sé að koma aftan að mönnum, sem eru í tíma búnir að gera kröfur um skiptingu, ef samþykkt er, að þær skuli allar falla niður, og finnst ekki réttlátt að gera það. Ákvörðun, sem snertir alla hreppa landsins fyrir tímabil, sem liðið er, þarf að gerast í tæka tíð, en ekki rétt þegar menn eru að framkvæma eldri ákvæði, því að þá ruglar hún allri niðurstöðunni. Þess vegna get ég ekki verið með þessu núna, nema jafnframt verði sett bráðabirgðaákvæði um það t. d., að ákvæði þessara l. skuli þó ekki hafa áhrif á skiptingu fyrir árið 1949, heldur öðlast gildi hvað snertir útsvör álögð 1951. Með slíku bráðabirgðaákvæði gæti ég verið með þessu, en ekki öðruvísi.