21.04.1950
Efri deild: 91. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

106. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér skilst, að hv. n. ætli að taka málið til nýrrar athugunar, og í tilefni af því langar mig til að biðja n. að athuga tvennt. Fyrst vil ég biðja hana að athuga, hvort hún telji ekki rétt, að á eftir d-lið 8. gr. l. verði bætt við nýjum lið þess efnis, að leggja megi gjald á eigendur eyðijarða og eventuelt sumarbústaða, að svo miklu leyti sem hrepparnir hafa útgjöld þeirra vegna. Það eru lögð ýmis gjöld á hreppana eftir tekjum, eignum, fasteignum, mannfjölda o. s. frv., en jörð, sem er í eyði, er enn í hreppnum, og fær hreppurinn af henni útgjöld. Stundum er það svo með þessar eyðijarðir, að þær standa í eyði vegna þess, að eigendurnir vilja ekki byggja þær, þótt menn vilji gjarnan taka þær á leigu, og get ég nefnt um það mörg dæmi. Austur í Landmannahreppi er t. d. jörð, sem eigandinn vill ekki búa á og neitar að leigja. Hreppurinn verður að greiða af henni, af því að hluta af tryggingagjöldum, sýslusjóðsgjöldum o. fl. er jafnað á hreppana eftir fasteignamati að nokkru leyti. En eigandinn, sem býr hér í Rvík, neitar að borga. Öll sanngirni mælir þó með því, að hann greiði gjöld af sinni eigin jörð. Ég vildi mælast til þess, að n. athugaði, hvort ekki væri sjálfsagt í svona tilfellum að heimila hreppsnefnd að leggja útsvar á eiganda sem því svarar.

Þá vildi ég benda á það í sambandi við 9. gr., að það er víða svo, og sérstaklega á það við um Siglufjörð, að menn, sem stunda þar atvinnurekstur, reyna að forðast að lenda undir tímaákvæði l. og haga því svo til, að einn eða tvo daga vanti á átta vikur, þegar þeir hafa gert plön sín hrein, jafnvel þótt þeir þurfi að láta ganga frá því síðasta annars staðar. Ýmsir síldarsaltendur hafa þannig fallið af útsvarsskrá á Siglufirði, og ég er þeirrar skoðunar, að tímaákvæðið ætti að færa niður í 6 vikur. Það getur ekki verið neitt vit í að láta atvinnurekstur upp á tugi þúsunda sleppa þannig við útsvar hjá viðkomandi hreppi, og ég vil skjóta því til n. að athuga, hvort ekki beri að stytta tímaákvæðið. Ég var að semja brtt. um þetta hvort tveggja, en mun bíða með þær eftir athugun nefndarinnar.