04.05.1950
Efri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

106. mál, útsvör

Gísli Jónsson: Herra forseti. Það hefur nú verið rætt efnislega mikið um þetta mál, og skal ég ekki tefja umræður. En ég vil leyfa mér að benda á, að rökst. dagskráin á þskj. 524 var felld með 9:6 atkv., en hún var á þá lund, að í trausti þess, að ríkisstj. legði fyrir næsta Alþingi frumvörp til laga um breytingar á útsvars- og skattalöggjöfinni, tæki deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Væri nú farið eftir tilmælum hæstv. forseta, þá skildist mér sem það mætti skoðast svo sem hér hefði orðið stefnubreyting og ætti að skoða fellingu frv. sem yfirlýsingu um, að ekki væri nauðsynlegt að endurskoða löggjöfina. Ég mun því fylgja frv. á þskj. 539 til að undirstrika það, að ekki sé hægt að bíða lengur eftir því, að löggjöfin sé tekin til rækilegrar endurskoðunar. Mér er hins vegar ljóst, að vafasamt er, að þetta verði að lögum. En ég álít sterkara fyrir málið í heild, að frv. þetta verði samþ. heldur en fellt.